Poppstjarnan Taylor Swift, sem er á meðan vinsælustu tónlistarmanna í heimi í dag, setti ekki nýjustu plötuna sína, sem kallast eftir fæðingarári hennar 1989, á tónlistarveituna Spotify. Auk þess staðfesti talsmaður Spotify í samtali við Business Insider að Swift hafi látið fjarlægja allar plötur sem hún hefur gefið út af veitunni. Aðdáendur hennar munu því þurfa að leita annarra leiða til að hlusta á tónlist Swift en að greiða mánaðarlega áskrift af Spotify.
Ein króna af hverri spilun
Tónlistarmenn græða mun minna á því að selja tónlistina sína í gegnum tónlistarveitur á borð við Spotify en þeir gera á því að selja stafrænar plötur og lög í gegnum þjónustur á borð við iTunes. Spotify greiðir reyndar 70 prósent af öllum tekjum sínum til plötuútgefanda, í ár verður sú tala um milljarður Bandaríkjadala eða 123 milljarðar króna. Spotify áætlar að hver spilun skili listamanni á milli 0,006 og 0,0084 Bandaríkjadala í höfundaréttargreiðslum, sem gera um 0,7 upp í rúma eina krónur. Það finnst mörgum listamönnum, meðal annars Taylor Swift, alls ekki vera nóg.
Spotify segist elska Taylor Swift
Spotify birti yfirlýsingu á heimasíðu sinni í dag vegna aðgerða Swift. Þar segir að fyrirtækið elski Taylor Swift og að yfir 40 milljónir Spotify-notendur elski hana enn meira. Nálægt 16 milljónir þeirra hafi hlustað á lag með henni síðasta mánuðinn og tónlist hennar væri að finna á meira en 19 þúsund spilunarlistum notenda Spotify.
„Við vonumst til þess að hún skipti um skoðun og leggist á árar með okkur við að byggja upp nýtt tónlistarhagkerfi sem virkar fyrir alla. Við trúum því að aðdáaendur eigi að geta hlustað á tónlist hvar sem er og hvenær sem er, og að listamenn eigi algjöran rétt til þess að fá greitt fyrir verk sín og verja sig fyrir sjóræningjastarfsemi. Þess vegna borgum við næstum því 70 prósent af tekjum okkar aftur til tónlistarsamfélagsins“.
Spotify er metið á nærri fjóra milljarða dala, um 490 milljarða króna. The Journal greindi frá því í sumar að Spotify sé mögulega til sölu fyrir yfir tíu milljarði dala, um 1.225 milljarða króna.