Opinbert bréf bandarísku söngkonunnar Taylor Swift til stjórnenda Apple hafði þau áhrif að fyrri ákvörðun þeirra, um að greiða ekki lagahöfundum höfundarréttarlaun á fyrstu starfsmánuðum nýrrar tónlistarveitu fyrirtækisins, var snúið við. Apple hugðist ekki greiða tónlistarmönnum höfundarréttarlaun fyrstu þrjá mánuði eftir opnun Apple Music, nýrrar tónlistarveita fyrirtækisins, en þá verður hægt að skrá sig án endurgjalds. Að þremur mánuðum liðnum munu notendur þurfa að greiða tíu dollara á mánuði.
Pistill Taylor Swift vakti mikla athygli um helgina en hann birtist á Tumblr síðu tónlistarkonunnar og hét „Til Apple, ástarkveðjur Taylor“. Þar sagðist Swift, sem er ein allra vinsælasta poppstjarna heims um þessar mundir, ekki streyma nýjustu breiðskífunni sinni 1989 í gegnum tónlistarveituna vegna ákvörðunar Apple um að greiða tónlistarmönnum ekki höfundarréttarlaun fyrstu þrjá mánuðina. Hún sagði ákvörðunina ekki snúast um sig heldur nýja listamenn. „Með fullri virðingu, það er ekki of seint fyrir Apple að breyta um stefnu og fá fólk innan tónlistargeirans til þess að skipta um skoðun, þá sem munu finna mest fyrir ákvörðun ykkar. Við biðjum ykkur ekki um ókeypis iPhone síma. Vinsamlegast ekki biðja okkur um að skaffa ykkur tónlist án endurgjalds,“ skrifaði Swift. Eddy Cue, einn æðsti yfirmaður Apple, brást við á Twitter og sagðist meðtaka skilaboðin.
We hear you @taylorswift13 and indie artists. Love, Apple
Auglýsing
— Eddy Cue (@cue) June 22, 2015
#AppleMusic will pay artist for streaming, even during customer’s free trial period
— Eddy Cue (@cue) June 22, 2015
Apple Music, ný tónlistarveita í samkeppni við Spotify og fleiri, fer í loftið þann 30. júní næstkomandi. Í boði verða um 30 milljón lög. Mánaðargjald verður tíu dollarar á mánuði eða 15 dollarar fyrir fjölskyldu, að loknu ókeypis þriggja mánaða prufutímabili.