Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðhhera, hefur verið ráðinn aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu en ráðning Teits var til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Hann mun meðal annars sinna verkefnum á sviði sjálfbærni og þjóðaröryggismála auk þess að vinna að samhæfingu mála ásamt öðrum aðstoðarmönnum.
Teitur Björn var aðstoðarmaður dómsmálaráðherra frá febrúar síðastliðnum en áður starfaði hann sem lögmaður hjá Íslensku lögfræðistofunni og sem aðstoðarmaður fjármálaráðherra. Þá var hann kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvesturkjördæmi árið 2016, en hann hefur verið varaþingmaður flokksins frá árinu 2017. Í síðustu kosningum var hann í þriðja sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi.
Jón Gunnarsson tók við sem dómsmálaráðherra þegar ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðiflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks var endurnýjað eftir síðustu kosningar. Vera hans í dómsmálaráðuneytinu mun hins vegar brátt líða undir lok þegar Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tekur við embætti dómsmálaráðherra. Þegar ríkisstjórnin var kynnt í lok nóvember í fyrra kom fram að Guðrún myndi taka við af Jóni eftir að hámarki 18 mánuði.
Guðrún hefur gefið það út að hún reikni með að velja sína aðstoðarmenn sjálf. „Þannig hefur það alltaf verið,“ sagði Guðrún í samtali við Fréttablaðið í desember, eftir að Hreinn Loftsson hætti sem aðstoðarmaður Jóns eftir tvær vikur í starfi. Ásamt Teiti hefur Brynjar Níelsson starfað sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra.
Teitur Björn verður þriðji aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar. Henný Hinz er aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar á sviði vinnumarkaðs-, efnahags- og loftslagsmála og Dagný Jónsdóttir aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar um samhæfingu mála.