Ef gert er ráð fyrir því að hlutdeild rafbíla í innflutningi fólksbifreiða haldi áfram að aukast á næsta ári má áætla að tekjutap ríkisins vegna breytinga sem lagðar hafa verið til af fjármála- og efnahagsráðherra, um að niðurgreiða kaup á nýjum rafbílum með skattaafsláttum út árið 2023, nemi 3,8 milljörðum króna.
Þetta kemur fram í frumvarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra sem lagt var fram á þingi fyrr í vikunni. Ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt hvað þetta atriði varðar verður ekki lengur horft til þess að niðurgreiða rafbíla upp að 20 þúsund bíla kvóta, heldur verða niðurgreiðslur ríkisins á rafbílum í boði út næsta ár óháð fjölda ökutækja sem seljast. Áætlað er að 20 þúsund bíla kvótanum verði náð í kringum mitt næsta ár.
Viðbótarívilnanir sem lagðar eru til á þessu ári 9,3-9,5 milljarðar
Það er ekkert sérlega langt síðan ákveðið var að hækka rafbílakvótann sem niðurgreiddur yrði úr 15 þúsund upp í 20 þúsund, en frumvarp þess efnis var samþykkt á vordögum. Áætlað tekjutap ríkissjóðs við að auka kvótann var í gögnum frá stjórnvöldum talinn liggja á bilinu 5,5-5,7 milljörðum króna.
Frá því í upphafi þessa árs hafa stjórnvöld því sett fram eða látið verða af áætlunum um nýjar niðurgreiðslur rafbíla í formi afslátta af virðisaukaskatti sem alls fela í sér 9,3-9,5 milljarða króna tekjutap fyrir ríkissjóð í formi afsláttar af virðisaukaskatti.
Skattaívilnanir vegna kaupa á hreinorkubílum hafa verið til staðar allt frá árinu 2012. Í marsmánuði kom fram í tilkynningu frá stjórnvöldum að frá þeim tíma væri búið að veita alls 12,4 milljarða króna í skattaafslætti vegna kaupa á hreinorkubílum, rafmagns- eða vetnisbifreiðum. Þar af námu ívilnanirnar 5,2 milljörðum árið 2021.
Til viðbótar höfðu niðurgreiðslur vegna tengiltvinnbíla numið um 13 milljörðum á þeim tímapunki, en afsláttur af VSK þeirra vegna hefur nú runnið sitt skeið.
Unnið að mótun stefnu til framtíðar
Í frumvarpi fjármálaráðherra eru afnám fjöldamarkanna rökstudd með þeim hætti að forgangsraða þurfi áherslum og fjármagni í þær aðgerðir sem skili mestum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og færa Ísland markvisst í átt að settum markmiðum í loftslagsmálum.
Vísað er til stöðuskýrslu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, sem kom fram í júlí, en þar sagði að tryggja þyrfti að jákvæð þróun í rafvæðingu bifreiðaflotans héldi áfram.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að stjórnvöld séu með til skoðunar hvernig stuðningi þeirra verði háttað á næstu misserum vegna orkuskipta í samgöngum á landi og að sú skoðun beinist meðal annars að því „hvernig stuðningi skuli fram haldið vegna kaupa einstaklinga á hreinorkubifreiðum, hvernig hvetja skuli bílaleigur í orkuskiptunum og hvernig stuðningi við vistvæna þungaflutninga skuli háttað“. Niðurstaða þessarar vinnu á í síðasta lagi að liggja fyrir í lok árs 2023. Samkvæmt frumvarpinu þykir rétt að tryggja fyrirsjáanleika hvað niðurgreiðslur varðar þangað til það hefur verið kynnt.
Þjóðhagslega óhagkvæm loftslagsaðgerð til lengri tíma
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sem birt var í sumar og fjallar um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum, að stuðningur við kaup á rafmagnsbílum væri þjóðhagslega óhagkvæmur.
Forsendur greiningar Hagfræðistofnunar hafa reyndar verið gagnrýndar, en í skýrslu stofnunarinnar var gengið út frá því að áfram yrði haldið að niðurgreiða kaup á rafbílum með sambærilegum hætti og nú er gert allt fram til ársins 2030.