Reykjavíkurborg bárust þrjú tilboð í Alliance-húsið við Grandagarð 2 eftir að húsið og meðfylgjandi byggingarréttur á lóðinni voru auglýst til sölu í febrúar á þessu ári. Öllum tilboðunum var hafnað, en það hæsta hljóðaði upp á 650 milljónir króna. Borgarráð samþykkti að hefja nýtt söluferli á fundi sínum í síðustu viku.
Það verður þriðja söluferlið sem ráðist hefur verið í á eigninni, sem Reykjavíkurborg keypti árið 2012 á um 340 milljónir króna. Borgin hefur svo varið yfir 100 milljónir í lagfæringar á ytra byrði hússins, sem er friðað.
Höfnun kauptilboðanna byggði meðal annars á því að tilboðin væru lág í ljósi verðmats, en KPMG verðmetur húsið og uppbyggingarréttindin á lóðinni á 870 til 1.260 milljónir króna.
Í greinargerð frá borginni segir að óvissa um verðmatið sé umtalsverð þar sem ekki liggi fyrir kostnaðarmat við endurbætur hússins, auk þess sem verðmæti lóða geti breyst hratt. Hins vegar var það niðurstaðan að „sterkar vísbendingar“ væru til að staðar um að tilboðið væri of lágt og „talsvert undir því sem eðlilegt matsvirði eignarinnar gæti verið miðað við gildandi deiliskipulag.“
Heimilt að byggja 4.193 nýja fermetra ofanjarðar
Upprunalegur hluti Alliance-hússins er skráður 2.007 fermetrar, en nýrri hluti þess, sem á að rífa samkvæmt skipulagi reitsins, er 470 fermetrar. Samkvæmt deiliskipulagi er heimilt byggingarmagn á lóðinni alls 7.600 fermetrar, þar af 6.200 ofanjarðar og 1.400 fermetra bílakjallari.
Það má því byggja alls 4.193 nýja fermetra ofanjarðar og heimilt er að auka byggingarmagn enn frekar með milliloftum, samkvæmt skilmálum í skipulagi reitsins, sem er frá árinu 2018.
Gert er ráð fyrir því að á efri hæðum nýbyggingar skuli vera gististarfsemi eða önnur skrifstofu- og atvinnustarfsemi, auk íbúða í efri hæðum nýbyggingar sem snýr að Mýrargötu. Á neðri hæðum er svo gert fyrir verslunum, veitingastarfsemi og léttri atvinnustarfsemi í að lágmarki fimm aðskildum rýmum.
Vildu ekki byggja hótelrými heldur íbúðir
Í 650 milljóna tilboðinu, frá félaginu E&S 119 ehf., sem tekið var til skoðunar af hálfu borgarinnar, var gengið út frá því að ekki yrði hótelstarfsemi á efri hæðum, heldur yrðu þar íbúðir.
Skipulagsfulltrúi borgarinnar taldi að kauptilboðið væri því ekki í samræmi við þá skilmála sem væru í gildi á svæðinu og gengið hefði verið út frá í auglýsingum á reitnum. Það var því ekki nóg með að tilboðið þætti í lægra lagi, heldur þyrfti einnig að gera skipulagsbreytingar til þess að leyfa íbúðir, meðal annars með tilliti til bílastæðamála, dvalarsvæða og birtumagns í nýbyggingum. Sagði í umsögn skipulagsfulltrúa að ef gera þyrfti slíkar breytingar á skipulagi kæmi upp sú spurning hvort allir bjóðendur hefðu setið við sama borð.
Borgin mun því að gera þriðju tilraunina til þess að reyna að selja Alliance-húsið.