Ríkið þarf að taka á sig veigameira hlutverk við fjármögnun reksturs almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, ef markmið stjórnvalda um breyttar ferðavenjur eiga að nást. Þetta kemur fram í umsögnum bæði Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Strætó bs. við drög að Grænbók um samgöngumál, sem hafa verið til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í sumar.
Grænbókin er liður í stefnumótun ríkisins í samgöngumálum og í henni kortleggur ráðuneyti samgöngumála stöðu mála eins og hún blasir við því í dag og leggur fyrir samráðsaðila.
Í umsögn SSH segir að samtökin hafi rekið eftir því við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að hefja vinnu við það að festa í sessi skuldbindingar ríkis og sveitarfélaga vegna rekstrarþátta þeirra samgönguinnviða sem falla undir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá 2019; stofnvega, stofnstíga og almenningssamgangna.
Í umsögninni, sem Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH undirritar, segir að mikilvægt sé að ljúka þessari umræðu um samkomulag á milli ríkis og sveitarfélaga um rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, sem hafi átt að vera lokið fyrir lok árs 2020.
„Ef markmið ríkisins um breyttar ferðavenjur eiga að ná fram að ganga þá verður ríkið að koma að rekstri almenningssamgangna og rekstri hjóla- og göngustíga,“ segir í umsögninni frá SSH, en ljóst er að með tilkomu Borgarlínu og nýs leiðanets Strætó mun grunnkostnaðurinn við rekstur strætisvagnakerfis á höfuðborgarsvæðinu aukast.
Talan tveir milljarðar á ári í aukinn rekstrarkostnað hefur verið nefnd í því samhengi.
Til að setja þá tölu í samhengi við rekstrarkostnað almenningssamgangna í dag var fyrr á þessu ári áætlað að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem eiga Strætó settu 4,33 milljarða króna inn í reksturinn á þessu ári og til viðbótar er gert ráð fyrir 900 milljóna króna framlagi úr ríkissjóði.
Á móti var áætlað að farþegatekjur næmu 1,67 milljörðum og auk þess var áætlað að Strætó fengi rösklega 1,6 milljarða króna í tekjur fyrir að sinna akstursþjónustu fatlaðra.
Samgöngusérfræðingar hjá Strætó, sem rita umsögn fyrir hönd fyrirtækisins í samráðsgáttina, segja nauðsynlegt að ríkið „stórauki“ framlag sitt til reksturs almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, svo hægt verði að tryggja að markmið um bættar almenningssamgöngur og breyttar og umhverfisvænar ferðavenjur náist.
Of mikil áhersla á almenningssamgöngur landsbyggðar
Í umsögn þeirra segir einnig að mikilvægt sé að ríkið styðji vel við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þéttasta byggðin með stærstu byggðakjarnanna sé og þar með mesta þörfin fyrir almenningssamgöngur til dags daglegrar notkunar.
Þar segir einnig að bæði Grænbók, og reyndar samgönguáætlun líka, leggi að mati Strætó „of mikla áherslu á landsbyggðina“ er komi að almenningssamgöngum.
„Á höfuðborgarsvæðinu eru mestu möguleikarnir til að sporna gegn loftlagsvánni og auka þjóðfélagslega hagkvæmni samgangna með aukinni þjónustu almenningssamgangna, þar sem langmestur fjöldi íbúa landsins býr í byggðakjörnum á höfuðborgarsvæðinu eða um 65%. Ef horft er til byggðakjarna sem eru innan vinnusóknarsvæðis höfuðborgarsvæðisins búa tæplega 80% landsmanna á því svæði. Það gefur auga leið að áherslan ætti að vera mest á þetta svæði til að sporna gegn loftlagsvánni og auka þjóðhagslega hagkvæmni hvað varðar almenningssamgöngur. Það að fleiri ferðist saman, á vistvænum orkugjöfum dregur úr mengun og eykur umferðaröryggi og skilvirkni vegakerfisins,“ segir í umsögn Strætó.