Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja séu að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning eða á markaði annars staðar. Hann segir að það sem eigi að gera er að taka ábendingum um þessa hluti alvarlega – rannsaka þá og komast til botns í þeim.
Þetta kom fram í máli hans í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar, Oddný G. Harðardóttir, spurði hann meðal annars hvort hann gæti tekið undir það að yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni færði útgerðarrisum meiri auð og völd en heilbrigt gæti talist og of sterka stöðu gagnvart stjórnvöldum.
Oddný hóf fyrirspurn sína með því að segja að öll vildum við hafa hér góð og stöndug fyrirtæki sem greiða góð laun og stuðla að heilbrigðum vinnumarkaði. Sem greiða skatta og gjöld og sinn sanngjarna hlut til samfélagsins.
„Sem betur fer eigum við mörg slík hér á landi og meðal þeirra eru útgerðarfyrirtæki. En deilur hafa staðið um fiskveiðistjórnunarkerfið í langan tíma og um hvernig auðlindarentunni af auðlind þjóðarinnar er skipt. Auðlindarentan af fiskveiðiauðlindinni hefur runnið nær óskipt í vasa útgerðarmanna og fært þeim auð og völd,“ sagði hún.
Þá benti þingmaðurinn á að mikil samþjöppun hefði átt sér stað í sjávarútvegi á undanförnum áratugum. „Tíu stærstu útgerðarfyrirtækin fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu með meira en 70 prósent kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarrisa í öðrum útgerðum. Eitt þessara fyrirtækja er Samherji sem hefur verið í umræðunni hér heima og erlendis vegna meintra skattsvika, peningaþvættis og mútugreiðslna. Eva Joly heldur því fram í viðtali við þýskan rannsóknarblaðamann að það sé ekki mikill vilji til að rannsaka þessi mál Samherja á Íslandi vegna þeirra valda sem Samherji hefur. Samherji sé valdamikill á Íslandi, þeir eigi valdamikla vini og það vilji enginn fá stóra rannsókn á málinu.“
Spurði hún ráðherrann um viðbrögð hans við þessum orðum Evu Joly og hvort hann gæti tekið undir það að yfirráð fárra yfir fiskveiðiauðlindinni, líkt og raunin væri hér á landi, færði útgerðarrisum meiri auð og völd en heilbrigð gæti talist og of sterka stöðu gagnvart stjórnvöldum.
Gömul umræða og ný
Bjarni svaraði og sagði að þetta væri gömul umræða og ný. „Hvernig eigum við að skipta ávinningnum af sameiginlegri auðlind? Háttvirtur þingmaður minnist á samþjöppun. Hvernig byrjaði samþjöppunin? Af hverju var frjálsa framsalið samþykkt? Hvers vegna barðist fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, fyrir því hér í þessum sal og greiddi með því atkvæði að framsalið yrði frjálst? Hvers vegna? Það var vegna þess að afkastageta flotans okkar, fyrirtækin í landinu, gátu sótt miklu meira magn af afla, sem sagt miklu meiri afla, heldur en afrakstursgeta miðanna bauð upp á. Við þurftum að aðlaga þetta tvennt. Þess vegna náðum við einmitt þeim árangri sem að var stefnt með samþjöppun heimilda. Að þessu var stefnt með opin augun vegna þess að útgerðinni gekk illa. Bæjarútgerðinni gekk víða illa.
Að þessu leytinu til get ég ekki tekið undir að það hafi verið mistök að auka framleiðnina í greininni. Sumir þeir sem tala fyrir hærra veiðigjaldi segja einmitt: „Hækkum veiðigjaldið enn meira til þess að fá enn meiri samþjöppun. Látum þá sem eru með minnstu skil af veiðunum, minntan afrakstur hafa af veiðunum, látum þá heltast úr lestinni. Hækkum veiðigjaldið til þess að tryggja að veiðarnar eigi sér bara stað hjá þeim sem geta gert það með sem hagkvæmustum hætti“.“
„Enginn fótur“ fyrir því að það skorti vilja á Íslandi til að rannsaka þessi mál
Sagði Bjarni að þarna lægi mótsögnin hjá þeim sem töluðu í senn gegn því að til staðar væru stór fyrirtæki og vildu hækka gjaldið sem mest. „Af því að það eru bara hagkvæm stór fyrirtæki sem geta risið undir miklu hærra gjaldi. En gjaldið leggst ekki með ólíkum hætti á litlar og stórar útgerðir heldur notum við í raun og veru meðaltal allra veiðiferða sem grunn að gjaldinu í dag.“
Hann telur að enginn fótur sé fyrir því að það skorti vilja á Íslandi til að rannsaka þessi mál en kallaði hann eftir sönnun um það. „Ég vísa til orða þeirra sem fara með þessar rannsóknir um að þeir séu á fullu við að sinna þeim og að þeir hafi fengið fjármagn til þess. Þannig að það er enginn fótur fyrir því.“
Orðspor Íslendinga ítrekað skaðast
Oddný sagði í framhaldinu að ráðherrann hefði ekki svarað spurningu hennar um það hvort að hann teldi stóru sjávarútvegsfyrirtækin vera orðin það stór að völd þeirra væru of mikil í samfélaginu og þau væru þannig að þessi fyrirtæki gætu ráðið því hvernig stjórnvöld stigju til jarðar í ýmsum málum.
„Orðspor Íslands og Íslendinga skaðaðist við bankahrunið. Það gerði það líka þegar fjöldi Íslendinga, þar á meðal ráðherrar, birtust í Panama-skjölunum,“ sagði hún og spurði hvort ráðherrann teldi að neikvæð umfjöllun um samskipti Samherja, meðal annars meint skattsvik í Færeyjun, peningaþvætti í gegnum banka í Noregi og mútugreiðslur í Namibíu gæti skaðað traust á íslensku atvinnulífi. „Að neikvæð umræða um viðskipti eigenda Samherja fylgi orðsporsáhætta? Hafi neikvæð áhrif sem teygir sig yfir í viðskipti annarra íslenskra fyrirtækja og viðskiptasamninga þeirra? Hvað er hæstvirt ríkisstjórn að gera til þess að verja orðspor Íslands að þessu leyti?“ spurði hún.
„Ég ætla ekki að láta draga minn inn í umræðu um meint brot“
Bjarni steig aftur í pontu og sagði að það sem gert væri þegar ásakanir um lögbrot kæmu upp væri að rannsaka. „Ég ætla ekki að láta draga minn inn í umræðu um meint brot, einhverjar vangaveltur um það hvort að ásakanir um brot sem kannski var framið muni mögulega skaða orðspor annarra fyrirtækja. Ég held ekki.
Getur háttvirtur þingmaður séð fyrir sér að þetta fyrirtæki sem er með starfsemi í Frakklandi, Þýskalandi og um allan heim sé að valda því að þýsk fyrirtæki séu almennt bara að lenda í orðsporsvanda. Ég held ekki. Það eru þýsk og frönsk fyrirtæki sem eru í eigu þessa sama félags og háttvirtur þingmaður setur hér á dagskrá sem varla eru að valda verulegri orðsporsáhættu.“
Hann sagist aldrei hafa fengið símtal, ábendingu eða umkvörtun frá nokkrum einasta aðila sem heldur því fram að ásakanir um lögbrot Samherja væru að valda einhverjum verulegum vandræðum fyrir íslenskan útflutning eða á markaði annars staðar.
„Það sem við eigum að gera er að taka ábendingum um þessa hluti alvarlega. Við eigum að rannsaka þá og komast til botns í þeim og við höfum ágætis sögu að segja í því efni eftir hrunið sem háttvirtur þingmaður er dálítið fastur í og minntist á hér í sinni ræðu; með þeim skýrslum sem gefnar voru út, með því uppgjöri sem þar fór fram, með þeim rannsóknum sem farið var í og dómum sem síðan féllu,“ sagði hann að lokum.