Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, telur að kjörnir fulltrúar á höfuðborgarsvæðinu hafi skyldu til þess að fjalla um hugmyndir sem þrýstihópur sem kallar sig Áhugafólk um samgöngur fyrir alla (ÁS) hefur sett fram um ódýrari Borgarlínu.
Þetta kemur fram í bókun sem Karen lagði fram á bæjarráðsfundi í Kópavogi í fyrradag. Í bókuninni segir að hún geti ekki tekið undir það mat, sem fram kom í nýlegu bréfi frá framkvæmdastjóra Betri samgangna, að ekkert sem fram hefði komið kallaði á breytingar á þeirri stefnu að fjárfest yrði í hágæða hraðvagnakerfi fyrir höfuðborgarsvæðið.
Kjarninn sagði frá inntaki erindisins, sem Davíð Þorláksson framkvæmdastjóri Betri samgangna er skrifaður fyrir, síðustu helgi. Erindið barst frá Betri samgöngum til stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í upphafi mánaðar og er þessa dagana að fá kynningu hjá sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu.
Ástæðan fyrir því að bæjarfulltrúinn segist ekki geta tekið undir það mat sem Betri samgöngur setja fram og rökstyðja í bréfi sínu, að ekkert hafi komið fram sem kalli á breytingar á stefnu um uppbyggingu hágæða almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu, er samkvæmt því sem fram kemur í bókun hennar sú að enn sé einungis búið að leggja fram frumdrög að fyrstu lotu Borgarlínu.
Áhyggjur af rekstrarkostnaði
Einnig kemur fram í bókun bæjarfulltrúans að „sérstakar áhyggjur“ skuli hafa af því að ekki sé enn ljóst hver rekstrarkostnaður Borgarlínu verði, né hvort að sveitarfélögunum sé einum ætlað að bera þann kostnað.
Vert er að halda því til haga í þessu samhengi að fram hefur komið að áætlanir geri ráð fyrir að rekstrarkostnaður almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu aukist um 2 milljarða króna á ársgrundvelli með tilkomu Borgarlínu og hærra þjónustustigi í nýju leiðaneti Strætó, sem Borgarlínan á að fléttast við í áföngum eftir því sem vinnu við sérrými fyrir borgarlínuleiðir vindur fram.
Vilji sveitarstjórna þurfi að vera skýr
Bæjarfulltrúinn kemur því þó skýrt áleiðis að hún vilji að tillaga ÁS fái frekari rýni hjá kjörnum fulltrúum á höfuðborgarsvæðinu.
„Það er ábyrgðarhluti að fara með fjármuni almennings. Tillagan sem Áhugafólk um betri samgöngur leggur fram, setur þær skyldur á kjörna fulltrúa að þeir fjalli um hana á sínum vettvangi svo vilji sveitastjórna sé skýr þessu mikilvæga máli,“ segir í bókun Karenar.