Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist telja að samstarf Sjálfstæðisflokks við Framsóknarflokk og Viðreisn sé helsti möguleiki Sjálfstæðisflokksins til þess því að sitja í ríkisstjórn á nýhöfnu kjörtímabili.
Þingmaðurinn fyrrverandi, sem er fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður samkvæmt þeim kosningaúrslitum sem liggja fyrir, telur að of erfitt verði að sætta mismunandi sjónarmið sem séu til staðar innan Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks til að samstarf þessara flokka geti haldið áfram.
Brynjar sagði, í nýjum hlaðvarpsþætti Þjóðmála sem birtist í gær, að fyrir sér væru tveir möguleikar í stöðunni og bætti svo við að það væri „annað hvort að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fari með Viðreisn, eða að Framsóknarflokkurinn fari bara með vinstriflokkunum. Þannig horfi ég á þetta í fjarlægð núna.“
Hann sagðist telja að það yrði „of erfitt að ná saman við VG“ nema Sjálfstæðisflokkurinn myndi gefa verulega eftir. „Það myndi skapa mikla óánægju í Sjálfstæðisflokknum og það er ekki á bætandi,“ sagði Brynjar.
Fyrr í þættinum hafði þingmaðurinn fyrrverandi lýst því yfir að það yrði erfitt að ná saman við Vinstri græn varðandi loftslagsmál. „Þetta eru svo ólík sjónarmið. Mér fannst Vinstri grænir nánast eyðileggja þennan möguleika með öllum þessum friðlýsingum hérna í lokin,“ sagði Brynjar og vísaði þar til friðlýsinga Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra skömmu fyrir kosningar, sem voru gagnrýndar opinberlega af nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokks.
Hann sagðist telja að það hefði í raun og veru verið „valdníðsla“ af hálfu ráðherrans að „ganga svona langt í þessu“ og að það verði „mjög erfitt“ fyrir Sjálfstæisflokkurinn að ná einhverju fram í stjórnarsáttmála við Vinstri græn um „hálendisþjóðgarð eða náttúruloftslagsskatta og hvað þetta heitir allt saman.“
Svandís hafi verið að „rústa heilbrigðiskerfið“
Einnig nefndi Brynjar heilbrigðismálin sem ásteytingarstein á milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna og tóku þeir Gísli Freyr Valdórsson ritstjóri Þjóðmála og Stefán Einar Stefánsson viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins, sem var gestur þáttarins ásamt Brynjari, undir það.
Raunar furðaði Stefán Einar sig á því í þættinum að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði ekki tekið sig saman, „barið í borðið“ og krafist þess að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra léti af embætti á kjörtímabilinu, en hann sagði framgöngu hennar í „aragrúa mála“ hafa verið óásættanlega og að hún hefði verið að „rústa heilbrigðiskerfið“ og hefði uppi áætlanir um að halda því áfram.
Fólk nái ekki að tengja við Sjálfstæðisflokkinn
Í þættinum var staða Sjálfstæðisflokksins til umræðu og sagði Brynjar að hann teldi að fólk næði ekki nógu góðri tengingu við flokkinn.
„Þess vegna stækkum við ekkert og þess vegna erum við smátt og smátt að minnka. Sumir segja að þetta sé bara einhver eðlileg þróun vegna fjölda flokka og svona, en til að ná einhverjum árangri þarftu að ná tengingu við Jón og Gunnu. Þannig að þau finni það að þú sért að hugsa um þau. Ég held að fólk líti frekar á okkur sem einhvern elítuhóp eða einhvern traustan valdaflokk. Við þurfum aðeins að hrista upp í þessu held ég,“ sagði Brynjar.
Þingmaðurinn fyrrverandi sagði einnig að Sjálfstæðisflokknum væri alltaf kennt um sem aflaga færi, þrátt fyrir að það væri á málefnasviði ráðherra sem ekki væru í flokknum. „Þetta er svo skrítið, okkur er alltaf kennt um allt. Það er kannski af því að við höfum verið lengst við völd, ég skal ekki segja,“ sagði Brynjar.