Smári McCarthy, þingmaður Pírata, vandar Miðflokknum ekki kveðjurnar á Facebook-síðu sinni í dag. „Miðflokkurinn hefur sóað rúmlega 12 klukkutímum af tíma þingsins í forsendulaust og beinlínis heimskulegt málþóf um mál sem snýst aðallega um að veita 23.7 milljónum króna til stuðnings fjölmenningarseturs á Ísafirði,“ skrifar þingmaðurinn.
Miðflokksmenn hafa á síðustu dögum haldið uppi málþófi en þeir hafa lýst yfir áhyggjum af stjórnarfrumvarpi sem snýr að því að útvíkka hlutverk Fjölmenningarseturs og auka fjárframlög til stofnunarinnar. Þeir óttast meðal annars að lagabreytingin fjölgi innflytjendum á Íslandi.
Áætlar að málþófið hafi kostað um 30 milljónir
Smári segir að tími þingsins sé ekki ókeypis, enda margt fólk sem vinni þar. Ætla megi að málþóf Miðflokksmanna hafi kostað þingið einhvers staðar í kringum 30 milljónir króna en hann byggir á tölum úr fjáraukalögum sem hann segir að hafi verið teknar saman eftir „fyrra heimskulega málþóf sömu manna“. Það hafi kallað á 40 milljón króna aukafjárveitingu vegna 3.000 aukalegra yfirvinnustunda á þinginu.
„Fyrir utan það hvað þetta er skelfilega léleg pólitík hjá þeim, þá eru svona skrúðgöngur þjóðernispopúlista á atkvæðaveiðum léleg nýting á tíma og peningum,“ skrifar hann.
Miðflokkurinn hefur sóað rúmlega 12 klukkutímum af tíma þingsins í forsendulaust og beinlínis heimskulegt málþóf um mál...
Posted by Smári McCarthy on Thursday, May 6, 2021
Skömm að tala málið niður
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi einnig Miðflokkinn í gær undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær. „Við eigum að sýna þann þroska að geta gert þetta með almennilegum hætti og gera það sem best, við sem rík þjóð, en snúa þessu máli ekki á hvolf, að þarna sé einhver stórhætta á ferðinni, að við séum að opna fyrir óheftan flutning fólks hingað víðs vegar úr heiminum. Við erum að samræma þessa þjónustu, vinna þetta af okkar bestu getu og eigum að gera það. Ég tel það vera skömm að tala þetta mál niður.“
Lilja Rafney gaf lítið fyrir þessa orðræðu Miðflokksmanna í máli sínu á þingi í dag. „Ég verð að viðurkenna það að sú mikla umræða sem hér hefur farið fram undanfarinn sólarhring um málefni innflytjenda gengur fram af mér. Þetta er gott mál sem er verið að leggja fram með yfirgnæfandi stuðningi hér á Alþingi. En það virðist vera að einn flokkur ákveði að leggja þetta mál upp þannig að það sé rétt að sá ótta og tortryggni gagnvart því við almenning í landinu. Þarna er verið að gera eitthvað sem er ekki gott í samhengi hlutanna,“ sagði hún.
Benti hún á að staða hælisleitenda og flóttamanna væri alþjóðavandi og við sem þjóð bærum siðferðislegar skyldur til að taka okkar skerf og gera það sem við getum til að hafa þessi mál í sem bestu lagi hér heima.