Stjórnvöld ákváðu í dag að halda áfram opinberum sóttvarnaráðstöfunum til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Litlar breytingar verða gerðar fram til 17. september, þrátt fyrir að opnað sé á að allt að 500 manns geti komið saman á viðburðum ef þeir framvísi niðurstöðum hraðprófs við inngöngu og metersreglan á sitjandi viðburðum verði afnumin, auk annarra mildra tilslakana.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins er sú hugmyndafræði sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita á næstunni útskýrð, en stjórnin segist vera að fara eftir „aðferðafræði temprunar“ hvað útbreiðslu veirusmita varðar.
Hvað er temprun?
Stjórnvöld segja að „temprun“ á útbreiðslu smita virðist ákjósanlegasta og ábyrgasta leiðin til þess að koma samfélaginu smám saman úr hættuástandi vegna COVID-19. Áður en samfélagið varð jafn bólusett og raunin er nú var stefnan sú að „bæla“ veiruna niður með hörðum aðgerðum og ekki leyfa smitum að dreifast um samfélagið.
Samkvæmt lýsingum stjórnvalda er nú stefnt að því að „viðhafa aðgerðir og ráðstafanir sem hægja á útbreiðslu veirunnar“ og segir að þessi aðferð sé „að verulegu leyti í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis um framtíðarfyrirkomulag sóttvarna á Íslandi.“
Þetta er þannig millivegur á milli þess að bæla niður smit með mjög hörðum aðgerðum og þess að leyfa veirusmitum að ganga óheftum yfir samfélagið.
Er þetta komið til að vera um lengri tíma?
Í tilkynningu stjórnvalda segir að aðferðafræði temprunar gildi í „takmarkaðan tíma,“ nema alvarlegar breytingar verði í eðli faraldursins, til dæmis vegna nýrra afbrigða.
„Temprun smita felur í sér að tekin eru skref í átt að frekari opnun en álag vegna veikinda dreifist á lengra tímabil heldur en ef aðgerðir eru aflagðar í einu vetfangi,“ segir í tilkynningu stjórnvalda.
Þar segir ennfremur að á fundum ríkissstjórnarinnar að undanförnu með „fjölbreyttum hópi sérfræðinga og hagsmunaaðila“ hafi komið fram „rík sjónarmið um mikilvægi þess að halda samfélaginu gangandi og takmörkunum sem minnstum í ljósi þess að bólusetning veitir góða vernd gegn alvarlegum veikindum.“
Í tilkynningunni segir einnig að „augljóslega“ þurfi áfram að taka mið af stöðu faraldursins og nýjum gögnum og upplýsingum sem fram munu koma við allar ákvarðanir, en í megindráttum sé „stefnt að því að viðhafa aðgerðir sem hægja á útbreiðslu veirunnar þegar ástæða er til“.
Samfélagið þurfi þó líka „að laga sig að því að lifa með veirunni án þess að hún hafi of mikil áhrif á daglegt líf.
Smám saman verði hægt að slaka á
Í tilkynningu stjórnvalda segir að samhliða því að Landspítalinn og heilbrigðiskerfið í víðara samhengi verði styrkt til þess að bregðast við alvarlegum veikindum og öðrum aðgerðum sem þörf sé að grípa til, sé sýnin sú að „leið temprunar feli í sér sífellt minni takmarkanir eftir því sem ónæmi og mótstöðuþrek vex.“
„Þannig verði smám saman unnt að draga úr kröfum um sýnatöku, sóttkví og einangrun, fjöldatakmarkanir verði rýmkaðar, grímunotkun verði gerð valkvæð, áhersla aukin á einstaklingsbundna smitgát og sérstakar takmarkanir á opnunartíma veitinga- og skemmtistaða verði afnumdar í áföngum,“ segir í tilkynningu stjórnvalda.