Viðreisn er ekki stóryrtur flokkur, „við skellum ekki fram einhverju eins og „tólf þúsund íbúðir – ég lofa!“ Við erum kannski að mörgu leyti íhaldssöm hvað það varðar. Við erum flokkur sem erum svolítið raunhæf,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, í nýjum kosningaþætti Kjarnans, Með orðum oddvitanna, þar sem Eyrún Magnúsdóttir ræðir við alla oddvita þeirra ellefu framboða sem bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara þann 14. maí.
Þórdís ræðir einmitt þennan fjölda flokka sem bjóða nú fram og að borgarfulltrúarnir verði, líkt og á yfirstandandi kjörtímabili, 23. „Þannig að það er alveg sama hvað manni langar að allt verði bara eins og við í Viðreisn viljum, við erum að fara – alltaf – að vinna með öðrum. Það er enginn að fara að stýra borginni einn.“
Því verði allir flokkarnir að finna leiðir til að vinna saman. „Og þá byrjar málamiðlunin,“ segir hún. „Það er það sem við þurfum að byrja að læra í íslenskri pólitík. Við sem fólk þurfum líka að læra að pólitík er málamiðlun og árangurinn er málamiðlun. En hún má ekki vera eitthvað moð. Hún verður að vera alvöru. Þess vegna segjum við að við í Viðreisn höfum skýra sýn, við viljum sjá hérna nútímalega, alþjóðlega og skemmtilega borg fyrir alla en við vitum alveg að þegar kemur að því að tala saman eftir kosningar þá þurfum við öll að finna einhvern sameiginlegan kjarna og halda okkur við það.“
Þórdís Lóa hefur átt sæti í borgarstjórn síðustu fjögur ár þar sem Viðreisn hefur verið í meirihlutasamstarfi við Samfylkingu, Pírata og Vinstri græn. Hún segir að meirihlutinn hafi sett sér það langtímamarkmið að öll tólf mánaða börn komist inn á leikskóla í Reykjavík og að á kjörtímabilinu hafi tekist að fara í þá átt, „en það er ekki búið að vera að lofa því að það sé komið á“. Leikskólaplássum hafi verið fjölgað um 430 á kjörtímabilinu, á sama tíma og íbúum hafi fjölgað um yfir 10 þúsund.
En er þetta að gerast of hægt?
„Mér finnst það já. Það hefur ekki vantað fjármagnið. Við þurfum að vera með fjölbreyttara umhverfi í byggingum, það er trú okkar Viðreisnar að með því að koma með öðruvísi leikskóla inn í byggingar sem eru íbúðabyggingar eða atvinnuhúsnæði getum við slegið aðeins í klárinn.“
Viðreisn hefur líka viðrað þá hugmynd að stórir vinnustaðir, háskólar og Landspítalinn svo dæmi séu tekin, geti opnað sína leikskóla og þá í húsnæði sem þeir eru með. Þetta hafi vissulega verið reynt „en ég held að við eigum að prófa þetta aftur“.
Sjálfstæðir skólar fái meiri stuðning
Viðreisn vill að fólk hafi raunverulegt val um grunnskóla og spurð hvað felist í því svarar Þórdís Lóa að vissulega eigi allir hverfisskólar að vera gæðaskólar en segir alltaf ákveðinn hóp, kannski tíu prósent, sem vill eitthvað annað „og þá þarf að vera val“. Í dag fái sjálfstæðir skólar um 75 prósent af rekstrarkostnaði frá sveitarfélögum og þurfi því að innheimta skólagjöld til að brúa bilið. „Við segjum af hverju fara sveitarfélög ekki alla leið, borga þeim jafnmikið og þeir eru að borga sínum eigin skólum þannig að þessir skólar þurfi ekki að rukka skólagjöld?“
Hvað samkeppnisrekstur varðar, sem Viðreisn vill að borgin sé einfaldlega ekki í, nefnir Þórdís Strætó sem dæmi. „Mér finnst alveg auðséð að við getum boðið meira og minna allan þennan rekstur út.“
Hún segir að það gæti „einhvers ótrúlegs misskilnings“ í umræðunni hvað varðar verkefni tengd stafrænni umbreytingu hjá borginni sem lagt var af stað með á kjörtímabilinu. Það sé „alls ekki rétt“ að borgin hafi ekki farið í útboð heldur hafi um 80 prósent verkefnanna verið boðin út. Það sem borgin geri innanhúss sé verkefnastýring. „En borgin er stór og ég skil að margir hafi orðið sjokkeraðir þegar það þurfti að ráða marga verkefnisstjóra til þess að innleiða þetta. Ég get vel skilið að það sitji í fólki.“
Um 60 manns hafi verið ráðin til borgarinnar í tímabundin verkefni tengd stafrænu umbreytingunni. „Borgin hefur engan áhuga á því að vera eitthvað hugbúnaðarhús. Alls ekki.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan: