Bandarískir skattgreiðendur þurfa að punga út hátt í 207 þúsund Bandaríkjadölum (ríflega 27 milljónum íslenskra króna) fyrir hverja klukkustund á meðan frægasta flugvél heims er á flugi. Hér er að sjálfsögðu átt við hina heimsfrægu Air Force One, eða farþegaþotu forseta Bandaríkjanna. Fréttamiðillinn Business Insider segir frá málinu.
Inni í upphæðinni er kostnaður við eldsneytiskaup, aðföng og viðhald samkvæmt skriflegu svari frá bandaríska flughernum við fyrirspurn Judicial Watch.
Barack Obama hefur ferðast meira út fyrir landamæri Bandaríkjanna en nokkur annar forseti í sögu þjóðarinnar, og það með dýrustu forsetaflugvél sem ríkið hefur nokkurn tímann rekið.
Þegar Bandaríkjaforseti ferðast með Air Force One er sjaldnast rauði dregillinn langt undan.
Í umfjöllun Business Insider eru tiltekin nokkur dæmi um ferðalög forsetans og hvað þau kostuðu bandaríska skattgreiðendur. Þar kemur fram að ferðalög Obama til Westchester í New York ríki, og til Providence á Rhode Island á síðasta ári hafi kostað skattgreiðendur ríflega 527 þúsund Bandaríkjadali, eða tæpar 70 milljónir íslenskra króna.
Þá er greint frá því að ferðalag Obama til Belfast og Dublin dagana 17. til 19. júní árið 2013 hafi kostað bandaríska skattgreiðendur tæpar átta milljónir Bandaríkjadala, eða röskan milljarð íslenskra króna.
Samkvæmt umfjöllun Business Insider hefur Obama heimsótt öll nema þrjú ríki Bandaríkjanna á meðan hann hefur setið á forsetastóli. Samkvæmt umfjöllun dagblaðsins The Washington Post, eru Bill Clinton og George H.W. Bush einu forsetarnir til að heimsækja öll 50 ríki Bandaríkjanna á síðustu 38 árum. Obama hefur hins vegar uppi áform um að verða ekki eftirbátur þeirra.
Forsetaflugvélin, sem er á þremur hæðum, er meðal annars útbúin fundarherbergi, borðstofu, íbúð fyrir forsetann, skrifstofum fyrir starfsfólk, læknastofu (læknir flýgur alltaf með flugvélinni), aðstöðu fyrir blaðamenn og eldhúsi sem getur reitt fram mat fyrir hundrað manns.