Hagsmunum Íslands, sem þarf að reiða sig á alþjóðasamvinnu vegna smæðar sinnar, er best borgið með aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO) og í nánu samstarfi við lýðræðisríki Evrópu. Þetta skrifar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, í grein sinni í nýjasta tölublaði Vísbendingar.
Kostir og gallar við smæð Íslands
Í greininni sýnir Gylfi fram á kosti þess og galla við að vera smáríki út frá hagfræðilegum kenningum. Ábatinn sé sá að íbúar séu yfirleitt samleitnari, sem geri lýðræðislega ákvörðunatöku auðveldari. Því til stuðnings nefnir hann smáríki Norðurlanda, þar sem jafnan er auðveldara að ná sátt um niðurstöður um ráðstöfun skatttekna og uppbyggingu velferðarkerfisins.
Hins vegar fylgi smæðinni einnig kostnaður, sem kemur í veg fyrir að Norðurlöndin sundrist í enn smærri einingar og fylki Bandaríkjanna lýsi yfir sjálfstæði. Dæmi um slíkan kostnað eru ýmis almannagæði sem hagkvæmara er að hafa í stórum ríkjum, líkt og landvarnir og gjaldmiðill.
Gylfi segir að nauðsynlegt sé að hafa þessa kosti og galla til hliðsjónar þegar stjórnvöld Íslands eigi að hámarka velferð landsins. Að hans mati er það gert með því að njóta sameiginlegra varna NATO-ríkjanna og sameiginlegan markað Evrópusambandsins.
ESB mikilvægara fyrir Ísland en áður
Samkvæmt Gylfa hefur mikilvægi Evrópusambandsins fyrir Ísland aukist til muna á síðustu árum, eftir því sem alþjóðavæðingu hefur farið aftur og efnahagsleg tengsl á milli austurs og vesturs hafa minnkað. Samhliða því mun innri markaður aðildarríkja sambandsins skipta meira máli fyrir íslenskan útflutning, en einnig mun landfræðileg lega Íslands skipta miklu máli fyrir Evrópuríki, sem munu auka landvarnir sínar og hernaðarmátt til að geta varist Rússum.
Gylfi segir Evrópusambandið þegar hafa sannað mikilvægi sitt fyrir innrás Rússa inn í Úkraínu, með þróun og dreifingu bóluefna gegn kórónuveirunni. Íslendingar nutu góðs af þessu fyrirkomulagi, sem tryggði öllum ríkjum innan samtakanna, smáum sem stórum, jafnan rétt að bóluefnunum.
Hann bætir því einnig við að fyrri hugmyndir Íslands um að hér gæti risið alþjóðleg fjármálamiðstöð sem ekki nyti þeirra samgæða sem felast í traustri mynt, fjármálaeftirliti og sterkum seðlabanka, hafi reynst byggðar á sandi. Sömuleiðis byggjast hugmyndir um að gefa Evrópusamstarf upp á bátinn og bjóða Kína velkomið á sama sandi.
„Það er tími til að velja hvar í þessu nýja landslagi stórvelda Ísland verður,“ skrifar Gylfi. „Vonandi verður það á meðal lýðræðisríkja Evrópu.“
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.