Þuríður Árnadóttir, staðgengill sýslumanns, útskýrði fyrir Helga Seljan í síðasta þætti af Ferð til fjár hvað gerist ef viðkomandi hættir af einhverri ástæðu að borga reikninga. „Það koma reikningar um hver mánaðarmót, það er ógeðslega leiðinlegt og skuldirnar lækka ekkert. Er ekki bara best að hætta að borga,“ sagði Helgi við Breka Karlsson, annan umsjónarmanna þáttanna. Breki taldi best í stöðunni að kalla til Þuríði og fá hana til þess að útskýra málið betur.
Fjárnám eða uppboð
Hér má lesa það sem fram fór á milli þeirra Þuríðar og Helga, þegar hún útskýrði hvað gerist þegar það kemur til fjárnáms og gjaldþrotameðferðar:
Þuríður: Ef þú hættir að borga reikninga, þar á meðal af fasteignalánum, þá getur það annað hvort endað með uppboði á fasteigninni eða þá að það er gert fjárnám hjá þér.
Helgi: Hvað þýðir það?
Þuríður: Fjárnám þýðir að skuldareigandinn, eða gerðarbeiðandinn eins og við köllum hann, fer fram á þú sért boðaður til fjárnáms. Þú getur bent á eignir til tryggingar þeirrar kröfu sem krafist er fjárnáms fyrir.
Helgi: Get ég lagt fram hvað sem er, málverk eða hvað annað?
Þuríður: Það er ekki hægt að leggja fram hvað sem er. Það verður að duga fyrir kröfunni. Ef hins vegar þú átt enga eign til þess að benda á þá er hægt að gera hjá þér árangurslaust fjárnám. Það þýðir að hægt er að krefast gjaldþrotaskipta á grundvelli árangurslauss fjárnáms og þú gætir lent á vanskilaskrá vegna þessa.
Helgi: Hvað tekur það langan tíma, eftir að ég hætti að borga reikningana mína, þangað til sýslumaður kemur með hamar og býður upp íbúðina mína?
Þuríður: Það getur tekið marga mánuði, alveg um ár.
Helgi: Get ég þá ekki bara hætt að borga og búið hérna í marga mánuði eða ár án þess að sýslumaðurinn komi og „haldi partý“?
Þuríður: Hvort þú getir búið frítt er kannski ekki sýslumanns að svara, frekar þeirra sem eiga kröfuna.
Þannig lauk hraðnámskeiði Þuríðar í því hvað gerist þegar við af einhverri ástæðum borgum ekki reikningana! Nánar má lesa um fjárnám og gjaldþrotameðferðir á vefsíðum Tollstjóra og Umboðsmanns skuldara.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 12. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.