Skotar kjósa um sjálfstæði í dag. Nýjustu kannanir sýna að allar líkur séu á því að sjálfstæðið verði fellt með naumum mun. Innan raða sjálfstæðissinna ríkir þó enn von. Von um að þeir hafi náð að sannfæra nægilega marga þeirra sem eru óakveðnir, að stærstum hluta konur og ellilífeyrisþegar, um að Skotlandi og þeim sjálfum sem einstaklingum muni farnast betur í sjálfstæðu ríki.
Viðsnúningurinn í kosningarbaráttunni hefur verið ævintýralegur undanfarnar vikur. Allt frá því að Skoski þjóðarflokkurinn náði hreinum meirihluta í skoska þinginu árið 2011 hefur legið fyrir að kosið yrði um sjálfstæði. Nánast allan þann tíma hefur það virst fjarlægur draumur samkvæmt skoðannakönnunum. Þann 7. ágúst síðastliðinn, fyrir sex vikum, birtist skoðannakönnun sem sýndi að 61 prósent þeirra sem tóku afstöðu ætluðu að segja nei. Einungis 39 prósent ætluðu að segja já. Mánuði síðar var gerð ný könnun sem sýndi að 51 prósent var fylgjandi sjálfstæði en 49 prósent á móti, tæpum tveimur vikum fyrir kosningar. Og Bretland fór á hliðina.
Hið auðuga Skotland
Það eru nokkuð margar ástæður fyrir því að, að minnsta kosti, tæpur helmingur Skota vill sjálfstæði. Eins sú helsta er að Skotland er auðugt land. Þar eru miklar náttúruauðlindir. Um 90 prósent allrar olíu sem framleidd er í Bretlandi kemur m.a. frá Skotlandi. Og 75 prósent allrar olíu sem framleidd er í Evrópusambandinu kemur frá Bretum. Þrátt fyrir að Skotar séu einungis um 8,4 prósent af heildarfjölda Breta landa þeir einnig um 60 prósent alls fiskveiðiafla sem landað er innan vébanda ríkisins. Glasgow er þess utan fjórða stærsta framleiðsluborg Bretlands. Viskí-útflutningur Skota er líka stórtækur. Um fjórðungur af útflutningi Bretlands á matar- og drykkjarvörum er vegna viskís. Um 35 þúsund manns starfa í skoska viskígeiranum. Þá er mjög stór tækni- og nýsköpunargeiri í Skotlandi. Um 45 þúsund manns starfa í honum innan landamæra landsins.
Landsframleiðsla á mann í sjálfstæðu Skotlandi myndi verða 2.300 pundum, 444 þúsund krónum, hærri árlega en hún er í Bretlandi nú. Það myndi setja Skotland í 14. sæti yfir ríkustu þjóðir heims.
Þessum auð vilja margir Skotar að sé eytt betur. Og innan landamæra Skotlands.
Stýrt af flokki sem þeir kjósa ekki
Skotar leggja nefnilega meiri áherslu á jöfnuð og sterkt velferðarkerfi en bresk stjórnvöld hafa gert. Sú aukna einkavæðing í heilbrigðis- og menntakerfinu sem átt hefur sér stað undanfarin misseri hugnast mörgum Skotum illa.
Annað sem fer mjög öfugt ofan í þá er sú staðreynd að Íhaldsflokkurinn sé með stjórnartaumanna í Stóra-Bretlandi. Því er ítrekað haldið fram í hálfkæringi að það séu fleiri pöndur í Skotlandi en íhaldsmenn. Það er samt stoð í brandaranum. Undanfarna áratugi hefur flokkurinn nánast horfið í Skotlandi. Í dag á hann einungis 15 af 129 þingmönnum á skoska þinginu. Af þeim 59 þingmönnum sem Skotar kjósa til setu á breska þinginu í Westminster er einungis einn íhaldsmaður. Þess vegna finnst mörgum Skotum beinleiðis fáránlegt að þeim sé stjórnað af flokki sem hefur nánast ekkert fylgi á meðal þeirra.
Verkamannaflokkurinn þarf hins vegar að hafa meiri áhyggjur af því ef sjálfstæði verður samþykkt en íhaldsmenn. Þeir eru með 40 þingmenn á breska þinginu sem kosnir eru af Skotum. Þeir eiga auk þess 37 þingmenn á skoska þinginu.
Gjaldmiðill, kjarnorka og alþjóðasamstarf
Deilumálin í kosningabaráttunni hafa auðvitað verið mýmörg. Eitt það helsta er að Skotar vilja halda breska pundinu sem gjaldmiðli, en breskir stjórnmálaleiðtogar hafa hafnað því algjörlega. Þeir hafa einnig bent á að sjálfstæðissinnar hafi ekkert plan B ef pundið verður ekki möguleiki sem gjaldmiðill.
Annað snýst um öryggis- og varnarmál. Þorri kjarnorkuvopna Bretlands er geymdur í Skotlandi, í Faslane-herstöðinni. Sjálfstæðissinnar hafa bent á að það sé siðferðislega rangt að hýsa vopnin og auk þess stjarnfræðilega dýrt. Fyrir þann hluta af kostnaðinum sem Skotland greiðir vegna þeirra á ári væri hægt að mennta 3.880 hjúkrunarfræðinga eða 4.527 kennara. Þetta er gríðarlega mikið vandamál fyrir Breta, vegna þess að flutningur kjarnorkuvopnanna er nánast ómögulegur. Segi Skotar sig úr varnarsamstarfi við Bretland munu Skotar því vera í mjög góðri samningsstöðu gagnvart gamla heimsveldinu. Það vill enda enginn annar fá nokkra kjarnorkuodda og kjarnorkukafbáta í garðinn hjá sér.
Skotar hyggjast auk þess ganga bæði í NATO og ESB ef þeir verða sjálfstæðir. Þeir eru hluti af báðum stofnunum nú þegar og því finnst þeim eðlilegt að sjálfstætt Skotland ætti að geta fengið aðild tiltölulega auðveldlega. Það á eftir að koma í ljós þegar á reynir hvort það verði raunin.
Allir á fullu í áróðrinum
Árangur sjálfstæðissinna á undanförnum vikum hefur sett Bretland á hliðina. Allskyns aðilar sem tóku ekki þátt í baráttunni áður hafa nú opinberað harða afstöðu. Risastór fyrirtæki með höfuðstöðvar í Skotlandi, eins og Royal Bank of Scotland og Lloyfs bankinn, hafa sagt að þau muni flytja höfuðstöðvar sínar til Englands ef sjálfstæði verði ofan á.
Helstu leiðtogar breskra stjórnmála, sem dags daglega eru svarnir pólitískir óvinir, hafa tekið höndum saman og túrað Skotland undanfarna daga, í þeirri viðleitni að sannfæra, og jafnvel hræða, Skota til þess að kjósa gegn sjálfstæði. David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, hefur gengið lengst í hræðsluáróðrinum. Hann hefur til dæmis varað Skota við því að viðskilnaðurinn yrði afar sársaukafullur fjárhagslega.
Stóra útspilið kom síðan í byrjun þessarar viku þegar opið bréf var birt í fjölmiðlum frá Cameron, Ed Miliband,formanni Verkamannaflokksins, og Nick Clegg, formanni Frjálslyndra demókrata,þar sem þeir strengja þess heit að skoska þingið fái meiri völd á næstu árum kjósi Skotar gegn sjálfstæði. Á meðal nýrra valda verði aukin tækifæri til að afla tekna og yfirráð yfir heilbrigðismálum.
Útspilið hefur gert allt vitlaust bæði hjá sjálfstæðissinnum, sem líta á það sem örvæntingafulla tilraun til að snúa þeirri bylgju kjósenda sem flykkst hefur yfir til þeirra á undanförnum vikum. Í breska þinginu hefur þessari heitstrengingu, sem er kölluð „The Vow“, heldur ekki verið tekið fangandi. Mýmargir þingmenn úr ýmsum flokkum hafa bent á að leiðtogar flokkanna hafi ekkert vald til að lofa slíkum völdum. Einungis breska þingið geti veitt þau. Þess utan séu kosningar í Bretlandi á næsta ári og ólíklegt sé að fleiri en í besta falli einn leiðtoganna þriggja muni lifa þær af. Þess vegna séu þeir að lofa einhverju sem þeir hafi hvorki heimild né getu til að standa við.
Ferguson, Connery og Björk
Fræga fólkið hefur ekki látið sitt eftir liggja í baráttunni. Undanfarið hafa sambandssinnar dregið fólk eins og David Beckham og nú síðast Sir Alex Ferguson á flot til að biðla til Skota um að segja nei. Hinum megin er Sean Connery og indie-poppstjörnum á borð við Mogwai og Franz Ferdinand flaggað eins og lukkudýrum sjálfstæðisbaráttunnar.
Ýmsir alþjóðlegir listamenn hafa ekki látið sitt eftir liggja. Björk Guðmundsdóttir er einn þeirra. Hún lýsti yfir stuðningi við sjálfstæði Skota á samfélagsmiðlum í gær og deildi með lagi sínu „Declare Independence“.
Sambandið við Bretland verður aldrei samt
Hvernig sem fer þegar talið verður upp úr kjörkössunum í kvöld þá er ljóst að baráttan fyrir sjálfstæði mun breyta stjórnarháttum í Skotlandi um ókomna framtíð. Það sem fáum datt í hug að væri raunhæfur möguleiki, að Skotar myndu kjosa með sjálfstæði, er nú svo nálægt því að vera staðreynd að samband þjóðarinnar við Bretland verður aldrei samt.