Heildarvelta með hlutabréf í júnímánuði var 94,5 milljarðar króna. Það er 23,4 prósent meiri velta en var í maímánuði og 106 prósent aukning frá júní 2020. Heildarvelta með hlutabréf í nýliðnum júnímánuði er sú mesta sem verið hefur hérlendis frá árinu 2008.
Þetta kemur fram í viðskiptayfirliti frá Nasdaq Iceland, sem rekur Kauphöll Íslands.
Þessi mikla aukning verður að mestu rakin til skráningar Íslandsbanka á markað, en viðskipti með bréf í bankanum hófust 22. júní. Þrátt fyrir að ná einungis sjö viðskiptadögum í síðasta mánuði voru langsamlega flest viðskipti með bréf í Íslandsbanka í júní, eða 3.543 talsins, eða um þriðjungur allra viðskipta sem voru með hlutabréf í síðasta mánuði, sem var líka sá mesti frá árinu 2008. Milli ára fjölgaði fjölda viðskipta um 189 prósent.
Virði Íslandsbanka hefur aukist um 50 milljarða
Heildarmarkaðsvirði allra skráðra félaga á báðum mörkuðum Kauphallar Íslands var 2.169 milljarðar króna um síðustu mánaðamót og jókst um 257 milljarða króna milli mánaða. Þar munar vitanlega mest um Íslandsbanka, en markaðsvirði hans nú er um 208 milljarðar króna. Það hefur aukist um 50 milljarða króna á rúmri viku, frá því að viðskipti hófust með bréfin og þeir sem keyptu í hlutafjárútboði bankans, þar sem íslenska ríkið seldi 35 prósent hlut, hafa ávaxtað eign sína um 32 prósent á örfáum dögum. Ríkið fékk alls 55,3 milljarða króna fyrir hlutinn í Íslandsbanka, og greiddi rúmlega tvo milljarða króna af þeirri upphæð í þóknanir til þeirra sem sáu um söluna. Því hefur virði bréfa í Íslandsbanka hækkað um nánast sömu upphæð og ríkið fékk fyrir 35 prósent hlutinn í síðasta mánuði.
Fjöldi eigenda úr átta þúsund í 32 þúsund
Úrvalsvísitala Kauphallarinnar, sem samanstendur af bréfum þeirra tíu félaga sem eru með mestan seljanleika, hefur hækkað um 55,28 prósent á einu ári og um 26 prósent frá áramótum.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að um það bil 32 þúsund einstaklingar áttu skráð hlutabréf á Nasdaq Iceland fyrir viku síðan, eða um níu prósent af heildaríbúafjölda Íslands. Í lok árs 2019 áttu einungis átta þúsund einstaklingar hlutabréf og hafði því þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði fjórfaldast á innan við tveimur árum.
Hins vegar er hlutabréfaeign almennings enn langt frá því að vera svipuð og hún var á árunum fyrir hrun. Vel yfir 50 þúsund einstaklingar áttu hlutabréf á árunum 2006 og 2007, en sá fjöldi minnkaði niður í 40 þúsund árið 2008. Á árunum 2010-2019 var svo fjöldi einstaklinga sem áttu hlutabréf undir tíu þúsund.