Eina útfærða aðgerð nýrrar ríkisstjórnar til að bæta hag lífeyrisþega er tvöföldun á sérstöku frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Markið á að hækka úr 100 í 200 þúsund krónur um komandi áramót.
Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, sagði við Vísi í fyrradag að tiltölulega fáir úr hópi lífeyrisþega muni geta nýtt sér þetta úrræði, sem á samkvæmt fjárlagafrumvarpinu að kosta um 540 milljónir króna á ári.
Í bandormsfrumvarpi sem lagt hefur verið fram samhliða fjárlagafrumvarpi, til að tryggja þær breytingar á lögum sem nauðsynlegar eru til að tryggja virkni þess, er ákvörðunin um tvöföldum frítekjumarksins rökstudd.
Þar segir að óumdeilt sé að áframhaldandi vinna eftir að ellilífeyrisaldri er náð eykur möguleika aldraðra til að bæta kjör sín, einkum þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þá hafa rannsóknir sýnt fram á að vinna og virkni á efri árum stuðlar að betri heilsu, dregur úr einangrun og hefur almennt mikið félagslegt gildi fyrir eldri borgara.“