Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata hóf sérstaka umræðu um rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands á Alþingi í dag og gagnrýndi í framsöguræðu sinni auk annars ónægar fjárveitingar til embættis héraðssaksóknara. Hún sagði pólitískar ákvarðanir hafa valdið því að Ísland ætti ekki burðuga, vel fjármagnaða og fullmannaða stofnun sem gæti rannsakað efnahagsbrot og skattalagbrot innan ásættanlegs tíma.
Þingmaðurinn spurði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að því, hvort hann væri sammála því að „óhóflegur dráttur á rannsókn Samherjamálsins sé vandræðalegur fyrir Ísland á alþjóðavettvangi,“ hvort íslensk stjórnvöld væru að „líta málið nógu alvarlegum augum“ og hvort það hefði verið fullnægjandi að leggja 200 milljónir sameiginlega til skattayfirvalda til að bregðast við málinu, eins og ríkisstjórnin gerði undir lok árs 2019.
Á meðal þess sem kom fram í svari Jóns var að það sem honum þætti helst vandræðalegt væri það að þingmenn vildu ræða rannsókn einstaks sakamáls á Alþingi Íslendinga og hefðu frammi kröfur um að stjórnvöld gripu inn í. Sagði hann einnig að sérstök fjármögnun til rannsóknar einstakra sakamála, eins og auknar fjárveitingar sem boðaðar voru í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eftir að mál Samherja í Namibíu sprakk út undir lok árs 2019 væru „óeðlileg afskipti“ af rannsókn einstakra mála.
Í ræðu sinni vísaði Þórhildur Sunna til viðtals fréttastofu Stöðvar 2 við Drago Kos, yfirmanns vinnuhóps OECD gegn mútum og spillingu, en í því kom fram að hann hefði búist við jafn kröftugum vinnubrögðum og yfirvöld sýndu við rannsókn á efnahagshruninu.
„Allir bjuggust við að það sama yrði uppi á teningnum núna. En það gerðist ekki. Ég myndi segja að það sé hálfvandræðalegt fyrir Ísland að Namibía sé landið sem dragi vagninn í rannsókninni. Það er íslenskum stjórnvöldum ekki til sóma,“ var haft eftir Drago Kos í frétt á Vísi.
Kos hafi ekki aflað sér upplýsinga
„Ég veit ekki til þess að þessi ágæti maður hafi aflað sér einhverra upplýsinga um málið frá þeim sem hafa eitthvað með hana að gera á Íslandi,“ sagði Jón Gunnarsson um Drago Kos í ræðu sinni í umræðunni.
Hann vísaði einnig til þess að hann ræki minni til þess að hafa séð haft eftir Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara í fjölmiðlum að saksóknarinn hefði setið fundið með Drago Kos í höfuðstöðvum OECD París í sömu viku og viðtalið hefði birst við hann í fréttum Stöðvar 2, án þess þó að Kos hefði séð nokkra ástæðu til að spyrja hann spurninga eða lýsa áhyggjum sínum við handhafa ákæruvaldsins.
„Mér sýnist að þetta viðtal við Drago [...] vera það sem helst er vandræðalegt, ef hann telur að Namíbía dragi vagninn í rannsókn Samherjamálinu,“ sagði Jón og sagðist telja rétt að rifja upp að rannsókn hér hefði hafist 2019 en árin 2015-16 í Namibíu. Sagðist hann ekki hafa haft miklar fréttir af rannsókninni þar í landi, nema þá um að sakborningar hefðu setið í gæsluvarðhaldi frá handtöku þeirra í lok árs 2019.
„Kannski finnst fyrirspyrjanda og yfirmanni vinnuhóps gegn mútum og spillingu það til eftirbreytni og merki um að þar séu menn að draga vagninn í rannsókninni, sýni gott fordæmi í mannréttindamálum,“ sagði Jón.
Veit ekki til þess að saksóknaraembættið sé vanfjármagnað
Hann bætti því við að hann vissi ekki til þess að héraðssaksóknari væri vanfjármagnaður og sagði héraðssaksóknara sjálfan hafa sagt að hann væri með fullmannað teymi í rannsókninni.
„Það er spurt hér um fleira og ég ætla ekki að ræða við fyrirspyrjanda um spillingarvísitölu Þorvaldar Gylfasonar. Vinnubrögð Íslandsdeildar Transparency International á Íslandi eru ekki til fyrirmyndar og þar á bæ mega menn vera í sinni pólitík mín vegna. Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því að vinnuhópur OECD gagnvart mútum og spillingu gagnrýni ríkisstjórnina fyrir slaka frammistöðu og áhugaleysi þegar kemur að rannsókn þessa máls sem hér um ræðir. Það er þá ástæða til að upplýsa þessa spillingarsérfræðinga í vinnuhópnum og alla sérfræðinga hér á þingi að ákæruvaldið er sjálfstætt í störfum sínum, hvorki dómsmálaráðherra né ríkisstjórn hafa afskipti af rannsókn einstakra mála, ef það gerist þá væri hægt að fara að tala um spillingu,“ sagði Jón einnig í svari sínu í umræðunni.
Um hvort hann teldi rannsóknina hafa dregist óhóflega sagði Jón: „Ég veit ekkert um það hvort rannsóknin hafi dregist óhóflega, rannsóknir mála eru misumfangsmiklar og þegar þær snúa að fleiri löndum löndum má ætla að þær taki lengri tíma en ella. Þótt að einhver pólitískur vinnuhópur í OECD eða pólitískir andstæðingar hér á þingi telji eitthvað vandræðalegt er ekki þar með sagt að svo sé. Eina sem mér finnst vandræðalegt er að þingmenn vilji ræða rannsókn einstaks sakamáls á Alþingi Íslendinga og kröfu um að stjórnvöld grípi inn í. Slík umræða hefur ekki verið gagnleg í fortíðinni og gjarnan reynst sneypuför. Mér sýnist að þeir sem telji sig vera sérstaka málsvara mannréttinda og réttarríkisins og baráttumenn gegn spillingu séu algjörlega að snúa öllu á haus í þessu máli. Það er áhyggjuefni og sérstaklega vandræðalegt og grafalvarlegt í mínum huga.“
Nokkur fjöldi þingmanna kvað sér hljóðs í umræðunni, sem fór fram á tólfta tímanum í dag.