Hertar reglur um sóttvarnarráðstafanir á landsvísu taka gildi á miðnætti í kvöld og gilda í þrjár vikur. Það þýðir að páskarnir verða í ár, líkt og í fyrra, með nokkru öðru sniði en við eigum að venjast frá fyrri tíð.
Tíu manna fjöldatakmörkun verður meginregla, grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað og margvísleg starfsemi sem rúmast ekki innan reglu um 10 manna fjöldatakmörkun verður stöðvuð.
Ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnaaðgerðir byggist á tillögum sóttvarnalæknis vegna hópsýkinga af völdum breska afbrigðis veirunnar sem upp eru komnar. En í örfáum atriðum fylgir heilbrigðisráðherra ekki tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.
Þórólfur leggur til: Almennar fjöldatakmarkanir verði miðaðar við 10 manns. Börn fædd 2005 og síðar verði ekki undanþegin þar sem að smit hjá börnum er algengt af völdum breska afbrigðisins.
Heilbrigðisráðherra ákvað: Almennar fjöldatakmarkanir 10 manns og ná til allra sem fæddir eru 2014 eða fyrr.
Þórólfur: Sund- og baðstöðum verði lokað.
Heilbrigðisráðherra: Sund og baðstaðir lokaðir.
Þórólfur: Líkamsræktarstöðvum verði lokað.
Heilbrigðisráðherra: Heilsu- og líkamsræktarstöðvar lokaðar.
Þórólfur: Íþróttir innan sem utan ÍSÍ, inni og úti, með eða án snertingar verði ekki heimilar.
Heilbrigðisráðherra: Íþróttir inni og úti, jafnt barna og fullorðinna, sem krefjast meiri nálægðar en 2 metra eða þar sem hætta er á snertismiti vegna sameiginlegs búnaðar, eru óheimilar.
Þórólfur: Sviðslistir verði bannaðar
Heilbrigðisráðherra: Sviðslistir og sambærileg starfsemi, svo sem bíó, er óheimil.
Þórólfur: Við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga þ.á.m. við útfarir verði að hámarki 20 gestir. Gestum verði skylt að nota andlitsgrímur og tveggja metra nándarregla verði tryggð. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum verði 10 manns.
Heilbrigðisráðherra: Trú- og lífsskoðunarfélög mega taka á móti 30 gestum við athafnir. Þeir skulu skráðir með nafni, kennitölu og símanúmeri en þurfa ekki að sitja í númeruðum sætum. Gestum er skylt að nota andlitsgrímur og tryggja skal 2 metra regluna. Hámarksfjöldi í erfidrykkjum, fermingarveislum og sambærilegum viðburðum er 10 manns.
Þórólfur: Verslanir megi taka á móti 5 einstaklinum á hverja 10 m2 að hámarki 50 manns. 20 starfsmenn mega vera í sama rými og viðskiptavinir. Gætt skuli að tveggja metra nándarreglu og skylt að bera andlitsgrímu þar sem regluna er ekki hægt að viðhafa.
Heilbrigðisráðherra: Verslanir mega taka á móti 5 einstaklingum á hverja 10 m2 að hámarki 50 manns. 20 starfsmenn mega vera í sama rými og viðskiptavinir. Tveggja metra nándarregla og grímuskylda.
Þórólfur: Söfn og aðrir opinberir staðir megi taka á móti að hámarki 10 einstaklingum Gætt skuli að tveggja metra nándarreglu og skylt að bera andlitsgrímu þar sem regluna er ekki hægt að viðhafa.
Heilbrigðisráðherra fjallar ekki sérstaklega um þetta í fréttatilkynningu sinni um ákvörðun sína.
Þórólfur: Skemmtistaðir, krár, spilasalir og spilakassar verði lokaðir.
Heilbrigðisráðherra: Skemmtistaðir, krár, spilasalir og spilakassar lokaðir.
Þórólfur: Veitingastaðir megi hafa opið til kl. 22 og gestir verði að hámarki 10 í rými og aðeins afgreitt í númeruð sæti og gestir skráðir. Vínveitingar einungis bornar fram til sitjandi gesta. Heimilt verði að hleypa inn nýjum viðskiptavinum til kl. 21 og skulu gestir hafa yfirgefið staðinn kl. 22:00. Gætt skuli að tveggja metra nálægðarmörkum og skylt að hafa grímur þar sem að því verður ekki við komið.
Heilbrigðisráðherra: Veitingastaðir mega hafa opið til kl. 22, með að hámarki 20 gesti í rými sem allir skulu skráðir og fá afgreiðslu í sæti sem eru númeruð. Vínveitingar skal bera til sitjandi viðskiptavina. Heimilt er að taka á móti nýjum gestum til kl. 21.00.
Þórólfur: Börn í leikskólum verði undanþegin tveggja metra reglunni og fjöldatakmörkunum. Mælst verði til að grunn-, framhalds- og háskólar fari nú þegar í páskafrí. Unnið verði að fyrirkomulagi skólahalds sem taki gildi eftir páska. Íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri verði ekki heimilt.
Heilbrigðisráðherra: Grunn-, framhalds-, tónlistar- og háskólum verður lokað frá og með morgundeginum og þar til hefðbundið páskafrí tekur við. Unnið verður að reglum um fyrirkomulag skólahalds að loknu páskafríi á næstu dögum.
Þórólfur: Ökunám og flugnám með kennara verði ekki heimilt.
Heilbrigðisráðherra: Ekki fjallað um í fréttatilkynningu en á blaðamannafundi stjórnvalda í dag kom fram að þessari tillögu yrði fylgt.