Kvikmyndin The Interview, sem Sony Pictures kvikmyndaframleiðandinn ákvað að fresta sýningu á vegna hótanna tölvuhakkara, er sem stendur með 9,9 í einkunn á vefnum Internet Movie Data Base, eða IMDB. Alls hafa á þriðja tug þúsund manns gefið henni 10 í einkunn. Samkvæmt því er hún besta kvikmynd sögunnar, en myndin hefur, líkt og áður sagði, ekki enn verið sýnd.
Í nóvember var gerð stórfelld tölvuárás á kvikmyndaframleiðandann Sony Pictures og trúnaðargögnum, tölvupóstsamskiptum, eintökum af óútgefnum bíómyndum og ýmsu fleira stolið. Hluti þessarra gagna hefur síðan lekið út og ollið miklu fjaðrafoki.
Bandaríska alríkislögreglan FBI segist hafa fengið það staðfest að Norður-Kórea standi að baki tölvuárásinni og að ástæðan sé umrædd kvikmynd, The Interview, sem gjallar um bandaríska blaðamenn sem eiga að myrða leiðtoga Norður-Kóreu fyrir bandarísku leyniþjónustuna CIA.
Eftir að hótanir bárust um að hryðjuverk yrðu framin ef myndin yrði sýnd ákvað Sony Pictures að hætta við sýningu hennar, en til stóð að frumsýna hana á jóladag.
Ákvörðun Sony Pictures hefur verið harðlega gagnrýnt, meðal annars af Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem segir málið sé allt hið alvarlegasta.
Í lok síðustu viku setti notandi IMBD gagnrýni á myndina inn á síðuna, hraunaði yfir Sony fyrir ákvörðun sína, gaf myndinni fullt hús og hvatti alla aðra til að gera slíkt hið sama. „Sem bandarískir borgarar þá höfum við algjöran rétt til að sjá þessa mynd, Sony þarf að láta sér vaxa hreðjar og sýna almenningi myndina. FÁIÐ ALLA SEM ÞIÐ GETIÐ TIL AÐ GEFA ÞESSARI MYND 10 Á ÞESSARI SÍÐU!!! OG HEIMTIÐ AÐ BIÐ FÁUM AÐ SJÁ HANA!!!“, segir notandinn.