Þorsteinn Guðnason aðaleigandi og stjórnarformaður DV kveðst ekki hafa talað við fulltrúa Framsóknarflokksins, hvorki Hrólf Ölvisson framkvæmdastjóra flokksins, né annan um viðskipti með hlutabréf í DV eða önnur. Þá fullyrðir hann að Framsóknarflokkurinn hafi ekki sýnt neinn áhuga á viðskiptum með hlutabréf í Útgáfufélagi DV.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Þorsteinn sendi Kjarnanum nú rétt í þessu, í tilefni af ummælum Ólafs M. Magnússonar í Kjarnanum í dag um að menn tengdir Framsóknarflokknum hafi viljað eignast DV.
Yfirlýsing Þorsteins í heild sinni
Í fréttatilkynningu frá 8. október, sem var inngangur að ráðningu nýs framkvæmdastjora, og kallaði á sérstakan starfsmannafund 9. október til útskýringar, sagði meðal annars:
"Einkenni íslensks fjölmiðlamarkaðar eru þrír stórir aðilar og fjöldi minni rekstraraðila. Margir hinna minni hafa um langt skeið átt við erfiðleika og óhagkvæmni að etja sökum smæðar og þurfa meiri umsvif til að ná tryggari afkomu. DV ehf. fellur undir hóp minni aðilanna.
DV ehf. getur stækkað innan frá og/eða með yfirtöku eða sameiningu við önnur félög á fjölmiðlamarkaðnum. Sennilega mun hvoru tveggja gerast. Til að renna enn styrkari stoðum undir félagið hafa forsvarsmenn þess átt í viðræðum við aðra fjölmiðla um samstarf eða viðskipti. Vinna við stefnumótun mun m.a. leiða í ljós með hvaða hætti slíkt samstarf eða viðskipti bera að. Mun frekar verða greint frá þessu á næstu dögum, auk þess sem frekari skipulagsbreytingar eru fyrirhugaðar í ljósi mannabreytinga sem urðu nýverið innan fyrirtækisins."
Svo mörg voru þau orð. Eftir þessu hefur verið unnið síðustu daga og vikur. Nýr framkvæmdastjóri hefur verið ráðinn, auglýsingasala hefur tekið kipp og áskrifendum er tekið að fjölga.
Það er þekkt á Íslandi að Ólafi M Magnússyni er ekki vel við framsóknarmenn, og sérstaklega ekki kaupfélagsstjórann á Sauðárkróki. Ég frábið mér að DV sé einhver leiksoppur í því mjólkurstríði, sem kemur blaðinu ekkert við.
Ég hef ekki talað við fulltrúa Framsóknarflokksins, hvorki þann sem Ólafur M. bendir á, né nokkurn annan um viðskipti með hlutabréf í DV eða önnur. Sá flokkur hefur ekki sýnt neinn áhuga á viðskiptum með hlutabréf i Útgáfufélagi DV.
Ég hef hins vegar átt formleg og óformleg samtöl við fulltrúa nokkurra fjölmiðlafyrirtækja á Íslandi um samstarf, sölu eða kaup í huga. Ég vona að þau mál skýrist á allra næstu dögum. Jafnframt verður upplýsingum um þau mál komið til réttra aðila, Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar.
Ég hef reynt að upplýsa starfsmenn um það sem eigendur eru að gera hverju sinni án málalenginga, og mun halda því áfram.