Facebook kynnti niðurstöðu þriðja ársfjórðungs í rekstri fyrirtækisins í gær. Alls voru tekjur Facebook á tímabilinu 1. júlí til 30. september 2014 3,2 milljarðar dala, eað um 387 milljarðar króna. Þar af voru 358 milljarðar króna auglýsingatekjur og jukust þær um 64 prósent frá sama ársfjórðungi 2013.
Á kynningunni sögðu Dave Wehner, fjármálastjóri Facebook, og Mark Zuckerberg, forstjóri fyrirtækisins, einnig frá því að kostnaður Facebook myndi líklega aukast um 70 prósent á næsta ári, 2015. Ástæðan væri sú að fyrirtækið ætlaði sér að ráðast í umsvifamiklar ráðningar á hæfileikafólk og uppkaup á tæknifyrirtækjum sem hentuðu starfsemi Facebook.
Zuckerberg opinberaði líka þriggja ára, fimm ára og tíu ára áætlanir Facebook. Í mjög grófum dráttum vill hann að ýmsar Facebook vörur,WhatsApp, Messenger, Search, Video, NewsFeed, Oculus og Instagram), muni hver um sig tengja um einn milljarð notenda. Þegar því takmarki verði náð ætlar Zuckerberg sér, af mikilli áræðni, að búa til peninga úr öllum þessum tengslum.
Zuckeberg vill líka bæta auglýsingaupplifun, sérstaklega á snjallsímum. Til að gera þetta mun Facebook miða út og mæla markhópa með nákvæmari hætti í gegnum þær upplýsingar sem fyrirtækið býr yfir. Í dag eyða auglýsendur í Bandaríkjunum einungis ellefu prósent af auglýsingafé sínu í að birta á snjallsímum. Í því sér Facebook mikil tækifæri.
Að lokum ætlar Facebook sér að leiða næstu stóru nýjung í tölvuframþróun fyrir massann, og er nokkuð ljóst að þar á að veðja á sýndarveruleika Oculus, en Facebook keypti Oculus á um 240 milljarða króna í mars síðastliðnum. Fyrirtækið ætlar líka að færa fleira fólki aðgang að internetinu í gegnum www.internet.org, sem á að lækka kostnað vegna slíks aðgangs mikið.
Hægt er að lesa útskrift af áætlun Zuckerberg á vef Business Insider.