Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar biðlar til þingmanna í meirihlutanum „að banka“ í Guðmund Inga Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og skora á hann að hækka atvinnuleysisbætur um 4,6 prósent, eins og gert var ráð fyrir í fjármálaáæltun fyrir árið 2022, með reglugerðarbreytingu og helst áður en þing fer heim.
Þetta kom fram hjá þingmanninum undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.
Hann benti á að í greinargerð með fjárlagafrumvarpinu hefði skýrt komið fram að atvinnuleysisbætur yrðu hækkaðar um 4,6 prósent, um sömu prósentutölu og greiðslur almannatrygginga.
Atvinnuleytendur skildir eftir
„Við hér á Alþingi gerðum ráð fyrir þessu þegar fjárlögin voru afgreidd,“ sagði Jóhann Páll og bætti því við hann honum hefði ekki dottið annað í hug en að Guðmundur Ingi myndi haga reglugerðarbreytingum um fjárhæð atvinnuleysistrygginga til samræmis við það.
„Hvað gerðist svo? Jú, án þess að mikið bæri á því, og án þess að nokkur umræða færi fram um það hér á Alþingi eða í samfélaginu, þá hækkaði hæstvirtur félags- og vinnumarkaðsráðherra grunnatvinnuleysisbætur miklu minna, ekki um 14.000 krónur eins og Alþingi ætlaðist til heldur um 6.300 krónur. Síðan hafa bæturnar fengið að rýrna að raunvirði eftir því sem verðbólgan hefur rokið upp.
Hvað gerðist svo þegar ríkisstjórnin lét loksins undan þrýstingi stjórnarandstöðunnar og kynnti mótvægisaðgerðir vegna verðbólgunnar? Jú, þá var aftur ákveðið að skilja atvinnuleitendur eftir, hóp sem er með lægstu tekjurnar á Íslandi og er þannig sérstaklega berskjaldaður fyrir hækkandi matvæla-, eldsneytis- og húsnæðiskostnaði,“ sagði þingmaðurinn.
„Þetta er alveg ótrúlega ómerkilegt, þetta er bara mjög ómerkileg framganga,“ sagði hann. „Gerið það nú, þingmenn meirihlutans, bankið í hæstvirtan félags- og vinnumarkaðsráðherra. Sameinumst um að leiðrétta þetta og fylgja forsendum fjárlagaársins 2022. Þó það nú væri,“ sagði hann að lokum.