Að sleppa gullfiski lausum í tjörn eða á getur haft alvarlegar afleiðingar á viðkomandi vistkerfi. Viðleitni til að gefa frelsi getur þannig auðveldlega breyst í skemmdarverk. Tímaritið TIME greinir frá málinu.
Samkvæmt rannsókn vísindamanna við Murdoch háskóla í Ástralíu, getur fiskur sem eitt sinn var gæludýr, haft mjög mengandi áhrif á vistkerfi í tjörnum og ám og þar með valdið miklum skaða.
Gullfiskar og koi fiskar, sem eru vinsælar fisktegundir til að halda sem gæludýr, eru smávaxnir í fiskabúrum, en ef þeir sleppa lausir út í stærra umhverfi geta þeir margfaldast að stærð. Þá éta þeir ógrynni fæðu sem aðrar tegundir í vistkerfinu nærðust á, og bera oft og tíðum með sér framandi sjúkdóma.
Samkvæmt rannsókn sem Murdoch háskólinn gaf út á síðasta ári eru framandi ferskvatnsfiskar ein mesta ógn sem steðjar að líffræðilegum fjölbreytileika í viðkomandi vatnasviði.
„Þeir éta fæðuna frá fiskunum sem þar eru fyrir, og eru fyrirferðamiklir í umhverfinu,“ segir Jeff Cosgrove, vísindamaður hjá Murdoch háskólanum, í samtali við ástralska ríkisútvarpið.