Þingflokkur Pírata segist fordæma „það hatur og þann rasisma“ sem Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður flokksins, hefur orðið fyrir síðan hún hóf feril sinn í stjórnmálum. Þingflokkurinn segist fordæma hverskyns hatursorðræðu í samfélaginu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þingflokknum í dag, sem send er út til stuðnings Lenyu Rún. Þar segir að allt frá upphafi stjórnmálaferils Lenyu hafi hún „þurft að mæta óvægnum áróðri og rasisma fyrir það eitt að taka þátt í stjórnmálum“.
Á undanförnum vikum hefur Lenya Rún sjálf birt dæmi um hatursfull skilaboð sem henni hafa borist á samfélagsmiðlum eða hafa verið látin falla um hana í opinberri umræðu á samfélagsmiðlum í kjölfar þess að hún var kjörin varaþingmaður.
Ég er nú kannski bara laganemi og varla fullorðin skv. þessari konu en það er ekkert sem bendir til þess - hvorki í lögum né hefðum - að ég þurfi að lúta kristnum gildum þegar ég stíg á þingpallana. Og bara svona í síðasta skiptið, þá er ég jafn mikill Íslendingur og allir aðrir. pic.twitter.com/JhxQFmmW58
— Lenya Rún (@Lenyarun) January 4, 2022
„Í lýðræðisríki er mikilvægt að allir þjóðfélagshópar hafi rödd og að Alþingi endurspegli sem best þverskurð af samfélaginu sem það þjónar. Hvers kyns rasismi, hatursorðræða og mismunun gagnvart fólki með erlendan bakgrunn er til þess fallinn að grafa undan lýðræðinu og má ekki viðgangast átölulaust,“ segir í yfirlýsingu þingflokks Pírata.
Fjölmiðlar hafi gert sér mat úr haturfullri umræðu án athugasemda við rasisma
Þar segir að Lenya Rún sé réttkjörinn varaþingmaður á Alþingi og mikilvæg rödd ungs fólks og fólks með erlendan bakgrunn. „Allt frá kjöri sínu hefur hún þurft að sitja undir rætnum persónuárásum, rasisma og hatursorðræðu vegna uppruna síns. Sumir fjölmiðlar hafa jafnvel gengið svo langt að gera sér mat úr þeirri hatursfullu orðræðu sem Lenya Rún hefur orðið fyrir án þess að gera nokkra athugasemd við rasismann sem í henni felst,“ segir í yfirlýsingu þingflokksins, en ekki er tiltekið til hvaða fjölmiðlaumfjöllunar er vísað.
„Þingflokkur Pírata hvetur stjórnmálahreyfingar á Íslandi til þess að fordæma alla hatursorðræðu og rasisma í pólitískri umræðu. Þá biðlar þingflokkurinn til fjölmiðla að sýna ábyrgð í fréttaflutningi um hatursfull ummæli með hliðsjón af þeim skaða sem gagnrýnislaus dreifing slíkra ummæla getur haft í för með sér. Loks lýsir þingflokkurinn yfir fullum stuðningi við Lenyu Rún og harmar það misrétti sem hún hefur þurft að þola á sínum stutta en öfluga stjórnmálaferli,“ segir í yfirlýsingu þingflokksins.