Ellefu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem ekki eru ráðherrar hafa í sameiningu lagt fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum, sem felur í sér að heilbrigðisráðherra þurfi að kynna ákvörðun um breyttar sóttvarnaráðstafanir í velferðarnefnd Alþingis áður en þær taki gildi, eða eins fljótt og hægt sé.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Bryndís Haraldsdóttir, en í greinargerð með frumvarpinu segir að það verði að teljast „eðlilegt og í samræmi við lýðræðisleg sjónarmið að ákvarðanir um setningu sóttvarnareglna séu kynntar Alþingi á einhvern hátt“ og mikilvægt sé að „framkvæmdarvaldinu sé veitt aðhald við jafn veigamiklar ákvarðanir og sóttvarnaráðstafanir“ sem oft takmarki stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna.
Þessar breytingar sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur til fela ekki í sér neina beina aðkomu Alþingis að ákvarðanatöku um sóttvarnaráðstafanir, en þær myndu sem áður segir skylda Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra að kynna þær fyrir velferðarnefnd áður en þær eru kynntar öllum almenningi.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að í nágrannalöndum Íslands hafi þjóðþing almennt aðkomu að ákvörðunum um sóttvarnaráðstafanir, „t.a.m. í Noregi þar sem 1/3 hluti þingmanna getur fellt reglugerðarákvæði um sóttvarnaráðstafanir og í Danmörku þar sem sóttvarnaráðstafanir þurfa að vera samþykktar af meiri hluta sérstakrar þingnefndar.“
Svo segir frá því að í Bretlandi sé málum þannig háttað að upplýsingagjöf um sóttvarnaráðstafanir samkvæmt kórónuveirulögum landsins sé tíð og ítarleg, auk þess sem lögin eru tímabundin og hafi því þingið bæði tilefni og tækifæri til að endurmeta þau og framkvæmd þeirra reglulega.
Þrátt fyrir að lagabreytingarnar sem sjálfstæðismenn leggja til geri ekki kröfu um að velferðarnefnd hafi nokkuð ákvörðunarvald um þær sóttvarnaráðstafanir sem lagðar eru til af ráðherra og sóttvarnalækni yrði umrædd breyting „engu að síður til hagsbóta þar sem ráðherra yrði gert skylt að kynna sóttvarnaráðstafanir fyrir velferðarnefnd og færa þar knýjandi rök fyrir nauðsyn þeirra,“ samkvæmt því sem segir í greinargerð með frumvarpi þingflokksins.