Ingibjörg Isaksen þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir að fjöldi og umfang verkefna sem flutt hafa verið yfir á sveitarfélög séu farin að hafa mikil áhrif á fjárhag þeirra og séu jafnvel farin að vera þeim ofviða og þá sérstaklega smærri sveitarfélögum.
Þetta kom fram í máli hennar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í síðustu viku.
Hún sagði að það kæmi fyrir að þingheimur samþykkti frumvörp sem auka kostnaðar- eða verkefnaþunga sveitarfélaga með meðfylgjandi kostnaðarauka.
Ingibjörg sagði að henni sem fyrrum sveitarstjórnarfulltrúa, en hún var í bæjarstjórn Akureyrar áður en hún fór á þing, fyndist nauðsynlegt að ræða hvað því fylgir þegar frumvörp sem þessi fara í gegn án þess að þingmenn gerðu sér fulla grein fyrir hver áhrifin geta verið á einstök sveitarfélög.
Sveitarfélög neyðst til þess að stækka stjórnsýsluna trekk í trekk
„Mörg sveitarfélög eiga í erfiðleikum með sín stærstu verkefni og sjá einfaldlega ekki fram á að ráða við þau þrátt fyrir góðan vilja. Fjöldi og umfang verkefna sem flutt hafa verið yfir á sveitarfélög eru farin að hafa mikil áhrif á fjárhag þeirra og eru jafnvel farin að vera þeim ofviða og þá sérstaklega smærri sveitarfélögum. Sveitarstjórnarmenn þvert yfir landið hafa ítrekað bent á þessa þróun og neikvæðu hliðarnar,“ sagði Ingibjörg.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefði einnig bent á þessa þróun en nýlega gerði sambandið samantekt á fjárhagsstöðu sveitarfélaga þvert yfir landið. „Þar er því spáð að þau verði rekin með miklum halla og samanlagðar skuldir komi til með að aukast verulega. Sá kostnaðarliður sem fer síhækkandi með hverju ári eru launaútgjöld og tengd gjöld til starfsmanna, en sveitarfélög hafa neyðst til þess að fjölga starfsmönnum og stækka stjórnsýsluna trekk í trekk til að mæta auknum verkefnaþunga. Launakostnaður verður því sífellt hærra hlutfall útgjalda sveitarfélaga.
Á sama tíma hefur kostnaður við fræðslumál aukist með nýjum reglugerðum og kröfum síðustu ár ásamt öðrum verkefnum. Sérfræðiþjónusta, NPA, skóli án aðgreiningar, mötuneyti og fleira eru vissulega allt jákvæð verkefni og mikilvæg þróun en kostnaðurinn þegar allt er lagt saman er orðinn verulegur fyrir sveitarfélögin,“ sagði þingmaðurinn.
Telur Ingibjörg það mikilvægt að þingheimur átti sig á raunverulegum áhrifum ákvarðana hans á fjárhag sveitarfélaganna ásamt afleiddum kostnaði af þeim ákvörðunum. „Því mun ég leggja fram mál á næstu dögum sem fjallar um að umfjöllun um áhrif stjórnarfrumvarpa á fjárhag sveitarfélaga skuli vera tekin fyrir í greinargerðinni. Með því geta þingmenn unnið og tekið ákvarðanir með fullri vitund um slík áhrif.“