Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að gagnrýnin umræðu um aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins eigi erfitt uppdráttar. Frelsið verði fyrsta fórnarlamb óttans og um leið hverfi umburðarlyndi gagnvart ólíkum skoðunum. „Leikir sem lærðir veigra sér við að spyrna við fótum og spyrja alvarlegra en nauðsynlegra spurninga þar sem óskað er eftir rökstuðningi fyrir hvers vegna frelsi einstaklinga er takmarkað og hvort of langt sé gengið. Þeim er mætt af fullkominni hörku og á stundum með svívirðingum. Þar ganga því miður læknar, sem fá útrás fyrir hégóma í sviðsljósi fjölmiðla, hart fram.“
Þetta kemur fram í grein sem hann birti í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Óli Björn enn fremur að til þess að magna ótta almennings sé grafið skipulega undan trausti á heilbrigðiskerfið. Það sé þó .þrátt fyrir allt er eitt það besta í heimi, þar sem fram- úrskarandi starfsfólk vinnur afrek á hverjum degi, sem hvorki fjölmiðlar né samfélagsmiðlar hafa áhuga á.“
Metfjöldi dag eftir dag
Metfjöldi kóronuveirusmita greindist í gær, samtals 215. Aldrei hafa fleiri greinst á einum degi frá því faraldurinn hófst hérlendis og nýgengi smita er nú hærra en nokkru sinni, eða 552. 21 liggja inni á spítala með veiruna, þar af fimm á gjörgæslu. Alls eru 1.773 einstaklingar í einangrun vegna smita og 2.636 eru í sóttkví.
Veitingahús og barir þurfa að loka dyrum sínum kl. 22 og koma öllum gestum út fyrir kl. 23 á kvöldin og fjöldi gesta í sundlaugum og líkamsræktarstöðum verður takmarkaður við 75 prósent af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.
Margháttuð gagnrýni
Þegar gagnrýni fór að heyrast á þessar aðgerðir, meðal annars frá þeim sem verða af tekjum vegna þeirra, stigu ýmsir læknar fram og bentu á að verja þyrfti Landspítalann frá viðbótarálagi með aðgerðunum. Á meðal þeirra var Þórir Bergsson, sérnámslæknir í bráðalækningum á Landspítalanum. Hann sagði í stöðuuppfærslu á Facebook síðastliðinn föstudag að „Spítalinn var smekkpakkaður fyrir þessa bylgju og við vorum komnir í 30-40 manns á BMT [bráðamóttöku] sem biðu eftir innlögn á hverjum degi [...] Spítalinn semsagt með rúmanýtingu vel yfir 100%. Ástandið á gjörgæslunni er almennt sveiflukenndara og oftast bærilegt, en það þarf lítið til að vagga þeim báti.“
Annar læknir sem stigið hefur fram í umræðunni undanfarna daga er Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á skurðsviði LSH og prófessor við læknadeild HÍ. Í grein sem hann birti á Vísi fyrir sex dögum síðan sagði hann að sumar af lykildeildum Landspítalans væru að sökkva í sæ. „Það eru engar ýkjur að flaggskip íslenska heilbrigðiskerfisins er komið með net í skrúfuna – og virðist reka að klettóttri strönd,“ skrifaði Tómas. og benti á að nær daglega heyrðust neyðaróp frá bráðamóttöku spítalans. Auk þess væru báðar gjörgæsludeildir spítalans fullar upp í rjáfur svo vikum skiptir. Sú staða hafi leitt til þess að ekki væri hægt að framkvæma neinar opnar hjartaaðgerðir í rúmlega tvær vikur á einu hjartaskurðdeild landsins. Heppni hafi ráðið því að enginn sjúklingur hafi „komið brátt inn og þurft á lífsbjargandi aðgerð að halda á þessum tíma. Það er óvenjulegt og getur breyst strax í dag.“
Læknir segir framgöngu ráðherra skrýtna
Í annarri grein eftir Tómas, sem birtist á Vísi í dag, segir að það verði teljast „skrýtið að ráðherrar skuli stíga fram undir formerkjum einstaklingsfrelsis og afnema takmarkanir sem eru nauðsynlegar og settar á með mannúð og hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.“
Landspítalinn sé enn og aftur kominn á hættustig, gjörgæsludeildir fullar upp í rjáfur og staðan víða mjög þung.
Á ríkisstjórnarfundi í gær ræddu ráðherrar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks um að harðari sóttvarnaraðgerðir yrðu látnar ganga yfir þá sem kjósa að þiggja ekki bólusetningu við kórónuveirunni.
í Fréttablaðinu var svo greint frá því að til standi að aka strætisvagni um götur borgarinnar sem bjóði fólki inn til að þiggja bólusetningu. Búið er að greina hverjir hafi ekki þegið bólusetningu og að strætisvagninn verðu komið fyrir í námunda við þá hópa.
Að vera frjáls borgari „aðeins óljós minning“
Óli Björn segir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag að flest séum við fús til að færa fórnir og sætta okkur við að búa við skert athafnafrelsi í ákveðinn tíma til að vinna bug á hættulegri veiru, ekki vegna þess að stjórnvöld þvingi okkur til þess heldur vegna borgaralegrar skyldu sem fylgir því að búa í frjálsu samfélagi. „Það versta sem frjáls einstaklingur gerir er að hlýða athugasemdalaust og án gagnrýni fyrirmælum stjórnvalda sem með einum eða öðrum hætti takmarka borgarleg réttindi, jafnvel þótt fyrirmælin séu til að verja almannaheill. Án aðhalds og gagnrýni verður til ríkisstjórn reglugerða og tilskipana.“
Hann segist viðurkenna nauðsyn þess að stjórnvöld geti gripið til aðgerða í sóttvörnum til að verja almenning á hættutímum. „Um leið verðum við að gera ákveðnar kröfur til stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda: Að þau viðmið sem stuðst er við séu skýr, öllum ljós og taki mið af breyttum aðstæðum (s.s. bólusetningu) og betri þekkingu. Að gætt sé samkvæmni í yfirlýsingum og upplýsingum. Að yfirvöld heilbrigðismála nýti svigrúm til að auka viðnámsþrótt mikilvægustu stofnana. Að hægt sé treysta því að aldrei sé gengið lengra en þörf er á – að meðalhófið ráði alltaf för, að stjórnvöld virði grunnréttindi borgaranna og starfi innan þeirra valdmarka sem þeim eru mörkuð. Að ekki sé kynt undir ótta til að réttlæta skerðingu á borgaralegum réttindum. Að málefnalegum athugasemdum og gagnrýni sé ekki mætt af hroka þeirra sem telja sig umboðsmenn valdsins og þekkingarinnar.“
Óli Björn segir að stjórnvöld hafi uppfyllt þessar kröfur illa á síðustu tuttugu mánuðum. „Líklegast er ekki við aðra að sakast en okkur sjálf, sem hlýðum tilskipunum gagnrýnislaust. Og þess vegna á frelsið í vök að verjast. Að vera frjáls borgari verður aðeins óljós minning.“