Húsnæðiskerfið á Íslandi er fullkomnlega galið, sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum um húsnæðismál í þinginu í dag. Settar hafi verið gríðarlegar fjárhæðir í það að hvetja fólk til að skulda í stað þess að hjálpa því að eignast og spara. Íbúðalánasjóður hefði fengið 55 þúsund milljónir, og fólk vildi ekki eiga viðskipti við hann.
Húsnæðismál voru rædd í sérstakri umræðu í þinginu nú seinni partinn, en upphaflega átti umræðan að fara fram klukkan 10:30 í morgun. Umræðunni seinkaði hins vegar vegna langra umræðna um rammaáætlun undir liðnum fundarstjórn forseta.
Það var Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem var málshefjandi í umræðunni. Hann fór um víðan völl, eins og reyndar margir þingmenn gerðu, og ræddi ástandið bæði á leigumarkaði og hjá þeim sem eiga eða vilja eiga húsnæði. „Það er orðið brýnt að sjá aðgerðir ríkisstjórnarinnar í öllum þessum málum.“ sagði hann í ræðu sinni. Það væri aðkallandi að fá svör frá ríkisstjórninni um það hvað eigi að gera til að bæta stöðuna.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fór yfir það í ræðu sinni hvað hún hefði lagt áherslu á í vinnu ráðuneytisins og við vinnu verkefnisstjórnar um breytta skipan húsnæðismála. Hún sagði vinnuna sem tengist tillögum verkefnastjórnarinnar verði unnin í áföngum og þau fjögur frumvörp sem unnið hafi verið að í vetur séu fyrsti áfanginn. Fyrstu tvö frumvörpin eru komin inn í þingið en Eygló sagði að hin tvö væru á „lokastigum“. Eins og greint hefur verið frá eru félagsmálaráðuneytið og fjármálaráðuneytið ekki sammála um þau frumvörp og það hvort þau komi fram.
Þingmenn sem tóku til máls voru flestir sammála um að aðgerða sé þörf í húsnæðismálum. Katrín Jakobsdóttir sagði húsnæðismál vera þau mál sem beðið væri eftir og það sem almenningur í landinu kalli eftir. Hins vegar muni þau frumvörp sem Eygló hefur komið inn í þingið ekki þau mál sem muni leysa vandann.
Færð hvergi húsnæði fyrir 100 þúsund
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýndi þau viðmið sem væru höfð til hliðsjónar í útreikningum á húsnæðisbótum. „Ég verð bara að upplýsa hæstvirtan ráðherra um það að þú færð hvergi húsnæði í Reykjavík fyrir 100 þúsund krónur, ef þú ætlar að vera með meira en eitt herbergi. Og það er jafnvel ekki hægt að fá stúdíóíbúðir á því verði fyrir einstaklinga.“ sagði Birgitta. Viðmið þyrftu að vera í samræmi við raunveruleikann. „Þessi tölfræði hefði kannski átt við árið 2005.“
Flokksbróðir hennar, Jón Þór Ólafsson, gerði strangar byggingarreglugerðir að umtalsefni. „Sjálfur myndi ég helst vilja lóða saman tvo gáma,“ sagði hann um draumahíbýli sín. Byggingarreglugerðir gerðu það hins vegar ómögulegt.
Brynhildur Pétursdóttir, þingkona Bjartrar framtíðar, hvatti Eygló til dáða og sagðist lítast vel á þær hugmyndir sem hún hefði heyrt. Hún gerði þó vaxtastig lána að umtalsefni, meðal annars væri það hærra en það þyrfti að vera vegna þess að hér væri notast við krónu. „Við erum að borga einhverja 8 milljarða á árinu í ár í vaxtabætur og mér finnst það svolítið skrýtið að ríkið og skattgreiðendur séu að borga fólki bætur vegna vaxtakostnaðar sem er svo hár í staðinn fyrir að ræða það þá kannski að taka upp annan gjaldmiðil og lækka vaxtakostnaðinn. Þetta er í rauninni svolítið brenglað millifærslukerfi ef út í það er farið.“