Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki árið 2025 og kostnaðarskipting milli ríkis og borgar á að taka mið af nýtingu mannvirkisins. Það þýðir að ríkið borgar fyrir þann hluta sem snýr að þörfum sérsambanda og alþjóðlegra krafna til keppnisaðstöðu landsliða og Reykjavíkurborg þann hluta sem snýr að þörfum Þróttar og Ármann annars vegar og íþróttakennslu skóla í Laugardalnum hins vegar. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans verður fullt aðgengi íþróttafélaganna að æfingavöllum tryggt í þeirri þarfagreiningu.
Til stendur að byggja höllina á svæði sem liggur milli Laugardalshallar og skrifstofumannvirkja Íþróttasambands Íslands, og að Suðurlandsbraut.
Í tilkynningu segir að Ríki og borg muni standa sameiginlega að hugmyndasamkeppni um hönnun mannvirkis og útlit og séu „sammála um að leggja kraft í verkið“. Báðir aðilar munu auk þess tryggja fjármögnun á stofnkostnaði í sínum langtímaáætlunum. Hver endanlegur kostnaður verður mun liggja fyrir eftir frumathugun og endanlega hönnun. Sérstök framkvæmdanefnd verður stofnuð um verkefnið sem mun sjá um umrædda frumathugun og undirbúning á fyrirkomulagi byggingaframkvæmda. Í vinnu hennar verða notkunarmöguleikar hallarinnar líka kannaðir til hlítar. Þegar liggja fyrir greiningar á þörfum sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir æfingar og keppnir landsliða og á þörfum Reykjavíkurborgar vegna íþróttafélaga og íþróttakennslu skóla.
Í sameiginlegri tilkynningu ríkis og borgar segir einnig að áfram verði „unnið að undirbúningi þjóðarleikvangs fyrir frjálsíþróttir í Laugardal og þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Markaðskönnun vegna þjóðarleikvangs í knattspyrnu verður unnin með það að markmiði að draga fram skýra valkosti um næstu skref í uppbyggingunni.“
Gaf mánaðarfrest
Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að til stæði að niðurstaða í málinu, sem hefur verið í miklum hnút, yrði kynnt í dag. Það var kynnt í borgarráði Reykjavíkur í gær og verður á dagskrá ríkisstjórnarfundar í dag. Í frétt Kjarnans var sagt að stíf samtöl hafi átt sér stað undanfarið um hvort ráðist yrði í byggingu þjóðarhallar í Laugardal. Borgarstjórinn í Reykjavík hafði gefið ríkinu frest fram í byrjun maí til að leggja fram fé í verkefnið. Næðist það ekki myndi borgin taka tvo milljarða króna sem hún hefur sett til hliðar fyrir það og nota þá til að byggja nýtt íþróttahús fyrir iðkendur Þróttar og Ármanns í Laugardal.
Nú er ljóst að náðst hefur saman um ramma utan um framkvæmdina og bæði ríkið og Reykjavíkurborg skuldbinda sig til að standa straum af sínum hluta af kostnaðinum.
Félögin fá sex velli í stað fjögurra
Á opnum íbúafundi í Laugarnesskóla 2. mars síðastliðinn ræddi Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ítarlega um aðstöðumál íþróttafélaganna í hverfinu. Þar sagði hann: „Ég veit að sumir hafa verið að pirra sig á því að það hafi verið að blanda þjóðarleikvöngum inn í þetta og ég skil það að vissu leyti. En ég hef haldið því fram, bæði þegar ég ræði við forystu Þróttar og Ármann og við ykkur hér að það geta verið ótvíræð tækifæri í því ef að ríkið loksins skuldbindur sig á þjóðarleikvang og gerir það strax.“
Dagur sagði að gamla Laugardalshöllin, sem hefur ekki verið í notkun vegna skemmda í tvö ár, verði tilbúin til notkunar 15. ágúst næstkomandi. Kosturinn við þjóðarhöll umfram sérstakt íþróttahús fyrir Þrótt og Ármann, sem borgin hafi tekið tvo milljarða króna frá til að byggj væri sá að gólfflötur í nýrri þjóðarhöll yrði slíkur að hann rúmi fjóra fulla keppnisvelli í handbolta. Þegar þeim yrði bætt við þá tvo velli sem eru í Laugardalshöll gæti þjóðarhallarlausnin skilað iðkendum í Laugardal alls sex æfingavöllum í fullri stærð, sem þyrfti að deila með landsliðum þegar þannig bæri undir.
Nýtt íþróttahús á bílastæðinu við hlið Þróttaheimilisins myndi skila tveimur nýjum völlum í fullri stærð og því var ávinningurinn að þjóðarhallarleiðirnir, mjög einfaldlega, fleiri vellir. Meira pláss.