Petro Poroshenko, forseti Úkraínu, biðlaði til Vesturlanda um hjálp við að ná fram friði í Úkraínu á öryggisráðstefnunni í Munchen í Þýskalandi í dag. Hann óskaði eftir hernaðaraðstoð og sagði skort á vopnum hafi valdið aukinni sókn uppreisnarmanna undanfarnar vikur. Þá sagði forsetinn að eina leiðin til að ná fram friði í Úkraínu væri að innleiða upprunalega vopnahléið sem samþykkt var í Minsk í byrjun september. Hann sýndi einnig vegabréf og önnur skilríki rússneskra hermanna, sem sönnun fyrir því að rússneski herinn tæki sannarlega þátt í stríðinu í landinu.
Those are passports and military IDs of Russian soldiers who 'lost their way' into Ukraine. pic.twitter.com/iAr2gQwE9O
— Петро Порошенко (@poroshenko) February 7, 2015
Auglýsing
Málefni Úkraínu hafa verið í forgrunni á fundinum í Munchen. Fyrr í dag sagði Angela Merkel að það væri ekki víst að tilraunir hennar og Francois Hollande Frakklandsforseta til að miðla málum muni heppnast. Tilraunin væri þó erfiðisins virði. „Ég held að þeir sem hafa orðið fyrir barðinu á átökunum í Úkraínu eigi það inni hjá okkur.“ Þau funduðu lengi með Vladimír Pútín Rússlandsforseta í Moskvu í gærkvöldi. Þótt engar niðurstöður hafi verið kynntar af fundinum var hann sagður hafa verið uppbyggilegur.
Will arming #Ukraine help bring about a negotiated solution? Angela Merkel on why she doesn't think so from #MSC2015: pic.twitter.com/7eldujuzzI
— Security Conference (@MunSecConf) February 7, 2015
Merkel varði þá skoðun sína að ekki ætti að senda vopn til úkraínskra stjórnvalda. Hún sagðist telja að sama hversu mikið magn af vopnum úkraínski herinn fengi yrði það aldrei nóg til að sannfæra Pútín um að Rússar myndu tapa. Fleiri vopn myndu einfaldlega þýða fleiri fórnarlömb í stríðinu. Þessum ummælum hennar var fagnað ákaflega á ráðstefnunni, en hvorki Poroshenko né Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, klöppuðu. Bandaríkjamenn íhuga nú alvarlega að senda hernaðaraðstoð til úkraínska hersins.
Rútur fullar af fólki keyra framhjá skemmdum skriðdreka við borgina Debaltseve.
Búist er við því að Merkel og Hollande haldi símafund með Pútín og Poroshenko á morgun og áfram verði rætt um mögulegt vopnahlé. Tímabundið vopnahlé í Debaltseve og nágrenni hefur gert þúsundum óbreyttra borgara að komast þaðan burt, en fólk hefur verið innlyksa í margar vikur vegna stríðsins.