Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, gerði þöggunarmenningu, siðareglur og tjáningarfrelsi að umtalsefni á Alþingi í dag undir liðnum störf þingsins.
„Ef þingmaður getur farið með almannafé og þarf að beita til þess sinni eigin dómgreind þá segir það sig sjálft að þingmaður getur misnotað það vald. Ef annar þingmaður sem er í stjórnarandstöðu kallaði eftir rannsókn á því hvernig stjórnarþingmaður fer með almannafé þá er stjórnarandstöðuþingmaðurinn sekur um brot á siðareglum Alþingis,“ sagði þingmaðurinn í upphafi ræðu sinnar.
Forsaga málsins er sú að siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu í maí 2019 að ummæli þáverandi þingflokksformanns Pírata, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem hún lét falla í febrúar 2018 í Silfrinu hefðu ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn.
Benti Helgi Hrafn á að þetta væri staðan sem alþingismenn byggju við í dag. „Þegar við settum okkur siðareglur var það í þeirri von að það myndi bæta störf okkar, ekki að skýla meiri hlutanum fyrir aðhaldi minni hlutans. En það er staðan sem við búum við í dag.“
Blaðamaður talinn hafa brotið siðareglur fyrir það eitt að tjá sig
Þingmaðurinn nefndi annað dæmi um „misheppnaðar siðareglur“ og vísaði í nýlegan úrskurð siðanefndar Ríkisútvarpsins frá 26. mars, í kærumáli Samherja gegn Helga Seljan fréttamanni. Helgi Hrafn sagði í kaldhæðnistón að fréttamaðurinn hefði dirfst „að tjá skoðanir sínar opinberlega“.
„Það var kært af fyrirtæki sem heitir Samherji og hefur orðið fyrir mikilli umfjöllun frá téðum blaðamanni. Samherji kærir mjög marga starfsmenn Ríkisútvarpsins fyrir brot á siðareglum og eftir stendur að tekið er undir það að Helgi Seljan, hæstvirtur blaðamaður, hafi brotið siðareglur um að tjá sig á almannafæri um sínar eigin pólitísku skoðanir. Ekki fyrir það að segja ósatt, ekki fyrir óvönduð vinnubrögð í sínum fréttaflutningi heldur fyrir það eitt að tjá sig,“ sagði þingmaðurinn.
Telur hann að þessi tvö dæmi séu einkenni þess að „við búum í þöggunarmenningu og höfum að mínu viti alltaf gert. Hún er svo rótgróin og svo djúpstæð að við sjáum hana ekki einu sinni, klöppum okkur jafnvel á bakið fyrir að búa í samfélagi þar sem tjáningarfrelsið sé svo mikils virt. Virðulegi forseti. Svo er ekki og það sanna dæmin.“