Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefur kallað eftir því að leiðtogar Evrópusambandsríkjanna 28 sýni samheldni og séu raunhæfir. Þetta sagði hann fyrir mikilvægan fund í kvöld þar sem rætt verður um lausn á skuldavanda Grikkja. Tsipras mun funda með forseta framkvæmdastjórnar ESB, Jean-Claude Juncker, í kvöld og búist er við því að forseti evruhópsins, Jeroen Dijsselbloem, taki einnig þátt í fundinum.
Tsipras hefur nú þegar sett fram áætlun um umbætur sem Grikkir vilja ráðast í, en þeir þurfa að greiða 300 milljónir evra til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á föstudaginn. Samkomulag þarf að nást við Evrópusambandið um umbæturnar áður en ESB og AGS leysa út neyðarlán til Grikkja.
Francois Hollande Frakklandsforseti sagði við fjölmiðla fyrr í dag að nú þokaðist mjög í átt að samkomulagi. „Við erum dögum, ég segi næstum því klukkustundum frá mögulegri lausn,“ sagði hann og bætti við að ef of mikils væri krafist af Grikkjum myndi það hamla hagvexti.
Talsmaður framkvæmdastjórnar ESB hefur þó sagt að það væri ekki von á neinni niðurstöðu af fundinum í dag.