Gísli Marteinn Baldursson dagskrárgerðarmaður á RÚV og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir á Twitter neyðarástand ríkja í loftslagsmálum.
Vísar Gísli Marteinn í frétt RÚV þar sem segir að nýjar landsáætlanir þjóða heims í loftslagsmálum dugi ekki til, eigi markmið Parísarsamkomulagsins að nást. Sé núverandi markmiðum fylgt megi gera ráð fyrir að losun minnki um tæp 8 prósent fyrir árið 2030, en hún þurfi að minnka um að minnsta kosti þriðjung og helst helming til að ná 1,5 gráðu markmiðinu. „Það kostar tífalt meiri samdrátt en kórónuveirufaraldurinn olli árið 2020,“ segir í frétt RÚV.
„En forréttindastaða freka karlsins (af báðum kynjum) er svo inngróin í okkur að við erum of hrædd til að segja honum mjög skýrt að við þurfum að keyra aðeins minna og borða aðeins minna kjöt. Frá og með deginum í dag,“ skrifar hann.
„Ísland á að menga meira því það er gott fyrir heiminn“ – Óboðleg stefna
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra svarar tístinu og segir að einnig megi „velta upp forréttindastöðu lands sem á gríðarlega verðmætar auðlindir sem má nýta á sjálfbæran hátt með lágmarks raski (en raski þó) til að framleiða græna orku til að minnka losun í heiminum, hætta að brenna jarðefnaeldsneyti,“ skrifar hún og bætir því við að henni finnist það að skila auðu sé frekt.
Gísli Marteinn svarar og þakkar henni fyrir viðbrögðin. „Takk Þórdís, vissulega rök. En ef þú ert að meina: „Ísland á að menga meira því það er gott fyrir heiminn“ þá held ég að það sé óboðleg stefna. Af hverju ekki að nota bíla minna? Ríki og borg ákváðu að við yrðum mesta bílaþjóð heims, af hverju ekki að hverfa frá þeirri stefnu?“ spyr hann.
Það er neyðarástand í loftslagsmálum. En forréttindastaða freka karlsins (af báðum kynjum) er svo inngróin í okkur að við erum of hrædd til að segja honum mjög skýrt að við þurfum að keyra aðeins minna og borða aðeins minna kjöt. Frá og með deginum í dag.https://t.co/5cqMMe42sC
— Gísli Marteinn (@gislimarteinn) October 27, 2021
Flest ríki sólundað tækifærum sínum
Í frétt RÚV er farið yfir skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna en hún varpar ljósi á stöðuna nú og það bil sem þarf að brúa, eigi að takast að koma í veg fyrir að meðalhiti á jörðinni hækki meira en sem nemur tveimur gráðum umfram meðalhita fyrir upphaf iðnbyltingar.
Í skýrslunni segir að flest ríki hafi sólundað tækifærum sínum til þess að beina stórauknum fjárfestingum, sem ráðist var í vegna kórónuveirufaraldursins, í kolefnishlutlausari átt. Þau ríki sem útdeildu stærstu hlutdeild innspýtingarinnar með hliðsjón af loftslagsmálum voru Þýskaland, Frakkland, Kanada, Finnland, Noregur og Danmörk. Á bilinu 39 til 75 prósent fjárfestinga þeirra töldust grænar.
Fátækari ríki hafa að sögn UNEP setið eftir og safnað skuldum, þau þurfi aukinn stuðning til að standa við loftslagsmarkmið sín, ella muni þau á næstu árum bæði leggja mest til loftslagsvandans og verða harðast fyrir barðinu á honum. Sögulega hvíli mesta ábyrgðin þó á iðnríkjunum.