Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir að tíst sem hún setti inn á Twitter í gær, og vakið hefur nokkra umræðu á samfélagsmiðlinum síðan, hafi verið „hugsað í algjörri einlægni sem tákn um virðingu fyrir manni sem er sameiginleg táknmynd margs þess besta í fari mannkyns; hugrekkis, réttsýni og baráttuþreki fyrir mannréttindum.“
Þetta kemur fram í skriflegu svari hennar við fyrirspurn Kjarnans um málið, en Þórdís Kolbrún hefur hlotið nokkuð beitta gagnrýni fyrir tístið, sem var á ensku og vísaði til orða bandaríska mannréttindafrömuðarins Martins Luthers King.
„Þórdís setti Twitter á hliðina,“ sagði í fyrirsögn fréttar DV um viðbrögð við færslunni og Fréttablaðið birti fyrr í dag frétt um að utanríkisráðherra hefði valdið „fjaðrafoki“ með tilvitnun sinni.
“Our lives begin to end the day we become silent about things that matter.” The wisdom of Dr Martin Luther King never loses its relevance, especially during times when many of the basic rights we may have thought to be secured and guaranteed have been challenged. #MLKDay
— Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (@thordiskolbrun) January 17, 2022
Utanríkisráðherra hefur meðal annars verið gagnrýnd í athugasemdum við færsluna fyrir að slíta orð King úr samhengi – og einn svarandi benti á að Martin Luther King hefði aldrei látið tilvitnunina sem Þórdís Kolbrún vísaði til falla í reynd, þrátt fyrir að hún væri oft eignuð honum og væri einskonar samantekt á frægri ræðu hans er mannréttindabarátta svartra var í algleymingi í Bandaríkjunum.
Orð hans og skilaboð eigi enn brýnt erindi við heiminn
Þá hafa sumir netverjar sett fram þá túlkun á færslunni að Þórdís Kolbrún hafi með færslu sinni verið að líkja saman baráttu King fyrir grundvallarréttindum svartra Bandaríkjamanna við sína eigin andstöðu við sóttvarnaráðstafanir og frelsisskerðingar vegna kórónuveirufaraldursins.
Því vísar Þórdís Kolbrún á bug.
Um tístið segir Þórdís Kolbrún í svari til Kjarnans að í gær hafi verið afmælisdagur Martins Luthers King og frídagur í hans nafni í Bandaríkjunum og „því gott tilefni til þess að minna okkur á að orð hans og skilaboð eiga enn brýnt erindi við heiminn.“
Spurð hvort það sé rétt túlkun á tístinu að tengja það skoðunum hennar á sóttvarnaráðstöfunum, segir Þórdís Kolbrún svo ekki vera.
„Í umræðum víða um heim hefur hins vegar gætt tilhneigingar til þess að takmarka frelsi fólks til tjáningar og frjálsrar hugsunar. Ég tel tilefni til að við minnum okkur á mikilvægi þess að andstæðar skoðanir fái að heyrast, og ég tek fram að mér er jafnumhugað um tjáningarfrelsi þeirra sem eru mér fullkomlega ósammála og hinna sem eru mér sammála,“ segir Þórdís Kolbrún í skriflegu svari til Kjarnans.