Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti og eini borgarfulltrúi Viðreisnar í Reykjavík, segir að það sé ekki ólíklegt að Viðreisn og Framsóknarflokkur séu að fara að vinna saman í borginni, þótt aðrir leikir séu vissulega í stöðunni.
Hún segir ljóst að gamli meirihlutinn, sem Viðreisn var hluti af, sé fallinn og að næstu skref séu að mynda nýjan meirihluta. „Í þessum fyrstu skrefum munum við standa saman; Viðreisn, Samfylking og Píratar. Við vitum að málefnalega eigum við samleið í mikilvægum málaflokkum sem snúa að framtíð borgarinnar; í skipulagsmálum, samgöngumálum og stafrænu uppbyggingunni. Þetta eru allt saman málaflokkar þar sem Framsóknarflokkurinn virðist standa nærri okkur, sé mið tekið af kosningaloforðum. En slíkur meirihluti yrði annar meirihluti en sá sem er nú að líða undir lok. Það er alveg augljóst.“
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook sem hún birti í dag.
Tapaði manni og fylgi en er í lykilstöðu
Viðreisn fékk 5,2 prósent atkvæða á laugardag í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík og tapaði þremur prósentustigum frá síðustu kosningum. Það varð til þess að flokkurinn tapaði öðrum borgarfulltrúa sínum. Flokkurinn er ákveðinni lykilstöðu þar sem stærsti flokkurinn í Reykjavík, Sjálfstæðisflokkurinn, getur ekki myndað meirihluta án Viðreisnar í ljósi þess að Píratar, Sósíalistaflokkur Íslands og Samfylking hafa útilokað samstarf við hann og Vinstri græn ætla að vera í minnihluta eftir að hafa fengið fjögur prósent atkvæða.
Enginn einn borgarstjóri ræður Reykjavík næstu árin
Þórdís Lóa segir í stöðuuppfærslunni að Viðreisn sé aftur komið í það hlutverk að aðrir flokkar vilja vinna með þeim í Reykjavík, hvoru megin miðju sem þeir standa, nema einna helst Sósíalistaflokkurinn sem Viðreisn treysti sér þó alveg til að vinna með. „Þessi staða kemur ekki af sjálfu sér, heldur vegna þess að Viðreisn getur unnið bæði til hægri og vinstri og við sýndum það á síðasta kjörtímabili. Við vorum í meirihluta með Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum. En við unnum líka náið með Sjálfstæðisflokknum að ýmsum verkefnum, t.a.m. að nýrri eigendastefnu borgarinnar og atvinnu- og nýsköpunarstefnu.“
Hún segist hafa átt gott kaffispjall við Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknar sem fékk fjóra menn kjörna um liðna helgi, þar sem þau fóru yfir málin og hvar flokkarnir tveir standa. „Af þeim meirihlutamöguleikum sem eru uppi er ekki ólíklegt að Viðreisn og Framsókn séu að fara að vinna saman, þó aðrir leikir séu vissulega í stöðunni. Hver sem niðurstaðan verður í þessum blikkleik, þá skiptir það mestu að komast að niðurstöðu um málefnasamning sem bindur næsta meirihluta saman. Það eru málefnin sem eiga að ráða för en ekki stólarnir.“
Hún segir að enginn einn borgarstjóri muni ráða í Reykjavík næstu árin. „Þannig var það ekki á síðasta kjörtímabili og þannig verður það ekki á því næsta. Hver meirihluti er samstarf ólíkra flokka, þar sem sjónarmið allra komast að.“
Við í Viðreisn erum aftur komin í það hlutverk að aðrir flokkar vilja vinna með okkur í Reykjavík, hvoru megin miðju sem...
Posted by Þórdís Lóa on Wednesday, May 18, 2022