Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, sigraði í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Nafna hennar, Þórdís Jóna Sigurðardóttir, sem einnig sóttist eftir að leiða flokkinn, hafnaði í þriðja sæti.
Sjö voru í framboði í þessu fyrsta prófkjöri Viðreisnar og kosið var um fjögur efstu sætin á lista flokksins. Prófkjörið hófst í gær og lauk síðdegis í dag. 1.939 voru á kjörskrá en eins og Kjarninn greindi frá í vikunni hefur flokksfélögum í Reykjavík einni og sér fjölgað um 600-700 manns í aðdraganda prófkjörsins. Alls bárust 1.182 atkvæði og kjörsókn var því 60,9 prósent. Fjögur atkvæði voru auð en ekkert ógilt.
Þórdís Lóa hlaut 575 atkvæði í 1. sæti. Pawel Bartoszek borgarfulltrúi hafnaði í 2. sæti með 799 atkvæði í 1.-2. sæti. Þórdís Jóna varð í 3. sæti með 646 atkvæði í 1.-3. sæti. Varaborgarfulltrúinn Diljá Ámundadóttir Zoega hafnaði í 4. sæti með 885 atkvæði í 1.-4. sæti en hún sóttist eftir þriðja sæti.
Pawel gaf einn kost á sér í 2. sæti en auk Diljár sóttist Geir Finnsson um þriðja sæti listans. Þá óskuðu Erlingur Sigvaldason og Anna Kristín Jensdóttir eftir stuðningi í 3.-4. sæti á framboðslista flokksins.
Uppstillingarnefnd mun stilla upp lista í samræmi við reglur
Úrslit prófkjörsins hafa verið afhent uppstillingarnefnd sem síðan mun stilla upp lista í samræmi við reglur Viðreisnar, til að mynda varðandi kynjahlutföll.
Viðreisn bauð fyrst fram til sveitarstjórna árið 2018 og fékk þá 8,2 prósent atkvæða í Reykjavíkurborg og tvo borgarfulltrúa kjörna. Í kjölfarið myndaði flokkurinn meirihluta ásamt Samfylkingu, Pírötum og Vinstri grænum.
Samkvæmt könnun um fylgi flokka í Reykjavík, sem Maskína framkvæmdi í lok janúar og byrjun febrúar, mældist Viðreisn ögn undir kjörfylgi sínu og var eini flokkurinn í núverandi meirihluta sem það gerði. Flokkurinn mældist nánar til tekið með 5,9 prósenta fylgi í könnun Maskínu, sem myndi þýða að hann fengi einungis einn borgarfulltrúa kjörinn.