Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, eini borgarfulltrúi Viðreisnar, útilokar ekki mögulegt meirihlutasamstarf með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki í samtali við mbl.is. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingar, sagði á Rás 2 í morgun að flokkur sinn, Píratar og Viðreisn hafa ákveðið að fylgjast að í viðræðum um myndun nýs meirihluta í Reykjavík næstu daga.
Flokkarnir þrír mynduðu meirihluta ásamt Vinstri grænum á síðasta kjörtímabili en sá meirihluti féll í kosningunum á laugardag.
Í frétt mbl.is er haft eftir Þórdísi Lóu að hún hafi „lært í pólitík að útiloka aldrei neitt og ég held að það sé bara mjög mikil lexía.“ Viðreisn geti unnið með öllum sem vilji vinna með þeim. Mestu átakalínurnar séu við Sósíalistaflokkinn. „En aðrir flokkar, eins og Framsókn, höfum við alveg mætur á og getum unnið með, eða Sjálfstæðisflokknum.“
Hún staðfestir að hafa hitt oddvita Pírata, Dóru Björt Guðjónsdóttur, og Dag í gær og þau hafi rætt það að verða samferða í komandi meirihlutaviðræðum. „En aðrir flokkar, eins og Framsókn, höfum við alveg mætur á og getum unnið með, eða Sjálfstæðisflokknum.“
Sjálfstæðisflokkur á einungis eina leið í meirihluta
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn mynduðu meirihluta ásamt Vinstri grænum á síðasta kjörtímabili en sá meirihluti féll í kosningunum á laugardag.
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn hafa samtals níu borgarfulltrúa og geta því myndað góðan 13 manna meirihluta með Framsóknarflokknum, sem vann mikinn kosningasigur og fékk fjóra borgarfulltrúa, eða tólf manna meirihluta með Sósíalistaflokki Íslands og Flokki fólksins. Ekki kemur til greina að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokki, stærsta flokknum í borginni, þar sem Samfylking, Píratar og Sósíalistaflokkurinn hafa útilokað slíkt samstarf.
Ofangreint gerir það að verkum að eini raunhæfi möguleiki Sjálfstæðisflokksins til að mynda meirihluta með Framsókn, Viðreisn og Flokki fólksins. Sá möguleiki er ekki til staðar haldi samflot Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar.
Litlar breytingar ef Framsókn verður „varahjól“
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, ætlar að hitta Dag á fundi í dag til að fara yfir mögulegan meirihluta. Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Vísi að lítið verði um breytingar í Reykjavík ef Framsókn ákveði að vera „varahjól“ undir föllnum meirihluta. Hún sagðist enn vera vongóð um að geta komist í meirihluta.
Framsóknarflokkurinn var ótvíræður sigurvegari borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík á Laugardag. Undir forystu Einars Þorsteinssonar, fyrrverandi fréttamanns og nýliða í pólitík, náði flokkurinn í 18,7 prósent atkvæða sem skilaði honum fjórum borgarfulltrúum í stærsta sveitarfélagi landsins þar sem Framsókn hafði engan áður. Auk Framsóknar bættu Píratar og Sósíalistaflokkur Íslands við sig manni og fylgi en aðrir flokkar stóðu annað hvort í stað í fjölda borgarfulltrúa eða töpuðu slíkum.
Mest tapaði Sjálfstæðisflokkurinn, 6,3 prósentustigum og tveimur mönnum, og Samfylkingin kom þar skammt á eftir með litlu minna tap og missti sama fjölda borgarfulltrúa. Viðreisn tapaði öðrum borgarfulltrúa sínum og Miðflokkurinn sínum eina.
Samanlagt fylgi fráfarandi meirihluta dróst saman og varð einungis 41,1 prósent. Það skilaði þeim ellefu borgarfulltrúum, eða einum minna en þarf til að mynda meirihluta. Þetta er orðið nokkuð þekkt þróun í Reykjavík en allir meirihlutar sem setið hafa frá árinu 2006 hafa fallið í næstu kosningum á eftir.