Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að nýja auðlindaákvæðið breyti engu, „breytir akkúrat engu“, og kallar það sýndarmennsku þegar verið sé að setja fram auðlindaákvæði „sem ekkert bit“ sé í.
Þetta kom fram í máli hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þessi orð óstinnt upp og sagði að þingmaðurinn gæti ekki talað svona, það væri „stórmál að undirstrika þjóðareignarhugtakið í stjórnarskrá“. Það væri einmitt sýndarmennska að halda öðru fram.
Málið snýst um það að forsetisráðherra hefur lagt fram tillögur um breytingar á stjórnarskrá en meðal þeirra er einmitt umtöluð tillaga um nýtt auðlindaákvæði.
Hóf Þorgerður Katrín mál sitt á því að segja að þetta væri ekki í fyrsta sinn og líklega ekki það síðasta sem hún kæmi upp í pontu til að ræða stöðu sjávarútvegsins á Íslandi og áhrif hans á íslenskt samfélag.
Hvað er gert hér?
„Umræða síðustu vikna varðandi eignarhald, ítök, hagsmunaaðila, skort á gagnsæi og vantraust almennings til stjórnvalda í þessum efnum hlýtur að vera rík brýning fyrir hæstvirtur forsætisráðherra að setja fram skýr og ótvíræð skilaboð um auðlindaákvæðið sem eitthvert bit er í, ekki einhverja sýndarmennsku. Þá er ég að undirstrika að við þurfum að hafa ótvíræða tímabindingu,“ sagði hún.
Þá benti hún á að norsk stjórnvöld, færeysk stjórnvöld, Namibísk stjórnvöld væru skýr um það að verja almannahagsmuni með viðbrögðum sínum þegar kemur að sjávarútvegi. „Það má eðlilega spyrja: Hvað hér? Hvað er gert hér? Sumir spyrja: Af hverju er meðvirknin svona mikil hér heima? Hvaða mynd er að teiknast upp á Íslandi?“ spurði hún.
„Hæstvirtur fjármálaráðherra segist engar áhyggjur hafa af þessu enda hugnast hvorki honum eða flokknum hans neitt annað heldur en núverandi ástand. En forsætisráðherra, mig langar að spyrja: Hefur hún áhyggjur af þessari þróun? Það blasir við hversu nauðsynlegt það er einmitt núna að sólunda ekki þessu tækifæri, að festa rækilega í sessi eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindinni og koma í veg fyrir enn frekari ítök hagsmunaafla sem ráða hér of miklu í samfélagi okkar eins og bent hefur verið á af m.a. af seðlabankastjóra. Tímabinding réttindaaðgangsins að auðlindinni er algjört lykilatriði með ótvíræðum hætti. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Mun hún beita sér fyrir því að það verði sett fram auðlindaákvæði sem er ótvírætt í þessa veru? Mig langar líka að fá viðhorf hennar til þess hvað það er sem Norðmenn sjá, Namibía, Færeyingar en við ekki,“ sagði þingmaðurinn.
Skilur norska ráðherrann mætavel
Katrín svaraði og hóf mál sitt á að tala um þessi í mál í Noregi og benti hún á að þar væru heimildir fyrir erlendu eignarhaldi í sjávarútvegi.
„Eins og kunnugt er lögðu Færeyingar fram og samþykktu frumvarp til laga um að takmarka erlent eignarhald í sjávarútvegi, sem er takmarkað á Íslandi. Bara til upplýsingar fyrir háttvirtur þingmann þá kom einmitt sjávarútvegsráðherra Færeyinga á þeim tíma hingað til lands til að kynna hugmyndir sínar og fá innblástur frá Íslandi þar sem slíkar fjárfestingar erlendra aðila eru takmarkaðar. Nú hefur það komið fram hjá norska sjávarútvegsráðherranum að hann hafi grunsemdir um, eða að uppi séu grunsemdir um, að erlendir aðilar, þar með talið íslenskt fyrirtæki, séu að sniðganga lög sem gera ráð fyrir því að skip með úthlutuðum kvóta verði að vera að minnsta kosti 60 prósent í eigu Norðmanna.
Ég ætla að segja það hér, að ég skil það mætavel ef ráðherrann í Noregi ætlar að ganga fram og skerpa á þessum lögum og reglum. Eðlilega vilja Norðmenn ekki að slíkar reglur séu sniðgengnar og slík lög. Þetta snýst um hagsæld þeirra og sjávarútveginn sem þeir stunda svo að ég hef fullan skilning á því, alveg eins og ég hafði mikinn skilning á því að Færeyingar vildu horfa til íslenska fordæmisins þegar kæmi að erlendu eignarhaldi. Það er nú kannski eitt mál,“ sagði hún.
Hvað auðlindaákvæðið varðar þá sagði ráðherrann að þar væri kveðið skýrt á um að þessar heimildir yrðu ekki afhentar varanlega. „Í greinargerð er kveðið á um að það merki að þær séu þá annaðhvort tímabundnar eða uppsegjanlegar. Háttvirtur þingmaður hefur talað fyrir því að þarna eigi eingöngu að tala um tímabindingu heimilda. Ég hef bent á að þarna geti verið ólík sjónarmið milli ólíkra auðlinda og mér finnist mikilvægt að slíkt ákvæði sé almennt, eigi við um allar auðlindir. Í öllu falli held ég að við háttvirtur þingmaður séum sammála um að mikil þörf sé á því að Alþingi svari ákalli almennings til margra ára um slíkt ákvæði í stjórnarskrá,“ sagði hún.
Spurði hvort Katrín væri tilbúin til þess að leggja pólitískan trúverðugleika sinn að veði
Þorgerður Katrín spurði í annað sinn og sagði að ákallið væri skýrt frá almenningi. „Ákallið er um það að láta ekki sjávarútveginn verða út undan í þessu. Það er það sem er hættulegt. Í greinargerð með frumvarpi forsætisráðherra stendur skýrt, í hennar eigin frumvarpi: Auðlindaákvæðið breytir engu, breytir akkúrat engu. Það er þessi sýndarmennska sem ég er að tala um þegar verið er að setja fram auðlindaákvæði sem ekkert bit er í,“ sagði hún.
Spurði hún um réttlætingu fyrir Vinstri græn að vera í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. „Ég er þeirrar skoðunar og undirstrika það að við þurfum að tryggja gegnsæi, tillögu um dreifða eignaraðild. Við þurfum að tryggja tímabindinguna þannig að þjóðin hafi ótvírætt forræði yfir auðlindinni, ekki afhenda hana með einhverjum loðnum hætti til til sjávarútvegsins til lengri tíma. Ég er þeirrar skoðunar að auðlindaákvæðið sem núna liggur fyrir gefi íslenskum almenningi lítið sem ekkert, það hróflar ekki við neinu eins og hæstvirtur forsætisráðherra segir sjálf í greinargerðinni.“
Spurði Þorgerður Katrín forsætisráðherra enn fremur hvort hún væri tilbúin til þess að leggja pólitískan trúverðugleika sinn að veði og horfast í augu við þjóðina og fullyrða að það auðlindaákvæði sem þær væru að ræða um tryggði rétt þjóðarinnar. „Þetta er alvörumál, herra forseti.“
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, kom með athugasemd í framhaldinu en hann sagði að það væru þingsköpin og fundartíminn líka en þingmaðurinn hafði verið lengur í pontu en ætlast er til.
Stórmál að segja að nýtingarheimildir verði ekki afhentar með varanlegum hætti
Katrín svaraði enn á ný og sagði að Þorgerður Katrín gæti ekki komið í pontu og kallað þetta ákvæði sýndarmennsku. „Auðvitað getur háttvirtur þingmaður ekki gert það. Það er stórmál að undirstrika þjóðareignarhugtakið í stjórnarskrá. Það er stórmál, herra forseti, að segja að nýtingarheimildir verði ekki afhentar með varanlegum hætti. Það skiptir verulega miklu máli. Það er stórmál að undirstrika það í stjórnarskrá að þessum heimildum verði ekki úthlutað nema gætt sé jafnræðis og gagnsæis.
Það er stórmál að kveða á um það í stjórnarskrá að með lögum skuli ákveða gjald fyrir nýtingu auðlinda. Háttvirtur þingmaður getur ekki komið hingað upp og setið svo og kallað hér fram í með slíka sýn. Við getum deilt um það hvernig nákvæmlega auðlindaákvæði eigi að líta út en það er ekki hægt að afgreiða þetta auðlindaákvæði sem hér liggur fyrir í þinginu, sem myndi undirstrika rétt íslensku þjóðarinnar til sinna auðlinda, og það er rangt og það er sýndarmennska að halda öðru fram,“ sagði hún.