Þórlindur Kjartansson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Báðir aðstoðarmenn Þórdísar Kolbrúnar frá síðasta kjörtímabili hafa látið af störfum. Ólafur Teitur Guðnason ákvað að leita á önnur mið og Hildur Sverrisdóttir var kjörin á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Með ráðningu Þórlinds hefur Þórdís Kolbrún því fyllt upp í helming þess aðstoðarmannakvóta sem hún má ráða sér samkvæmt lögum.Þórlindur er með BA-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og ML-gráðu í lögfræði með sérstaka áherslu á alþjóðalög frá Háskólanum í Reykjavík. Hann var formaður Vöku-félags lýðræðissinnaðra stúdenta, stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna
Auglýsing
Þórlindur hefur auk þess fjölmiðlareynslu, en hann var um árabil fastur pistlahöfundur á Fréttablaðinu. Auk þess hefur hann skrifað hundruð pistla um margvísleg málefni á vefritið Deigluna og þrjár bækur um íþróttir, í félagi við Eggert Þór Aðalsteinsson.