Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri og einn stærsti eigandi Samherja, segir niðurstöðu sérstaks saksóknara, um að fella niður mál á hendur honum og öðrum starfsmönnum Samherja, vera gleðiefni og sýna glögglega að fyrirtækið og starfsmenn þess hafi farið að lögum og sinnt störfum af heilindum. Seðlabankinn hafi farið fram með tilhæfulausar ásakanir og að „offorsi“ ruðst inn á skrifstofur Samherja í húsleitartilgangi, í mars 2012, án þess að hafa nokkuð í höndunum sem studdi þær aðgerðir eða ásakanir um lögbrot yfir höfuð.
Þetta kemur fram í ítarlegu bréfi Þorsteins Más til starfsmanna Samherja sem birt hefur verið á vef félagsins. Í bréfinu rekur Þorsteinn Már málsatvik, hvernig það þróaðist á rannsóknartíma og á hverju ákvörðun sérstaks saksóknara byggir.
Í bréfinu segist Þorsteinn Már hafa þurft að svara fyrir verðlagningu á fimm tonnum af bleikju, á ríflega þriggja ára tímabili, sem að mati Seðlabankans hafi verið of lágt. Bankinn hafi misskilið og reiknað verðið út ranglega, þar sem hann hafi ekki notað réttar forsendur í skoðun sinni á málinu. „Sem dæmi um offorsið sat ég í yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara vegna kæru Seðlabankans þar sem ég var ásakaður um alvarlegt og gróft brot yfir langt tímabil sem fólst í að selja samtals 5 tonn af bleikju á 39 mánaða tímabili, á verði sem var tveimur milljónum króna of lágt að mati Seðlabankans. Þegar ég bað um gögn til rökstuðnings kæru Seðlabankans um verð annarra útflytjenda á bleikju til Þýskalands kom í ljós að engin slík gögn voru til þar sem enginn annar seldi bleikju til Þýskalands á sama tímabili. Þess í stað sýndi starfsmaður sérstaks saksóknara mér skýrslu Seðlabankans þar sem bankinn bar saman verð á bleikju, sem við seldum til Finnlands, við 5 tonnin sem seld voru til Þýskalands. Til að fá sem neikvæðasta niðurstöðu úr þessum samanburði varð Seðlabankinn að horfa framhjá gjörólíkum afhendingarskilmálum og mismunandi markaðsaðstæðum. Í öðru tilfellinu var búið að byggja upp markað og í hinu tilfellinu var verið að reyna að búa til nýjan markað. Yfirheyrslan fór fram tæpum tveimur árum eftir að stofnað var til málsins og nokkrum mánuðum eftir að seðlabankastjóri tilkynnti mér í gegnum hádegisfréttir fjölmiðils að hann hefði kært mig til sérstaks saksóknara. [...] Eins og þetta einfalda dæmi sýnir hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta mál eða leysa það fyrr. Í hvert sinn sem við fengum aðgang að gögnum málsins var unnt að sýna fram á að ásakanir bankans voru ekki á rökum reistar. Þessi vinnubrögð horfa þannig við mér að markmiðið hafi fyrst og fremst verið að valda okkur skaða frekar en að sannreyna ásakanir um meint lögbrot. [...] Því miður stukku margir á vagninn með Seðlabankanum. Hef ég oft þurft að horfa upp á að vegið sé á ósmekklegan hátt að mannorði mínu og ykkar starfsmanna á opinberum vettvangi. Ég hef oft sagt að tjónið sem af þessu hefur hlotist er gríðarlegt. Mér er ekki efst í huga fjárhagslegt tjón heldur hvernig þessar skipulögðu ofsóknir hafa spillt orðspori okkar um allan heim,“ segir meðal annars í bréfi Þorsteins Más.
Þá er margítrekuð sú niðurstaða sérstaks saksóknara í málinu að engin lög hafi verið brotin og að starfsfólk Samherja hafi unnið heiðarlega að framgangi mála innan fyrirtækisins.