Þorsteinn Sigurðsson hefur verið skipaður í embætti forstjóra Hafrannsóknastofnunar til næstu fimm ára, en frá þessu segir í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði í stöðuna eftir að hafa tekið þá þrjá einstaklinga sem hæfnisnefnd mat vel hæfa til að gegna embættinu í viðtal. Mat Kristjáns var að Þorsteinn væri hæfastur umsækjenda til að stýra Hafrannsóknastofnun.
Alls bárust sex umsóknir um embættið, en umsóknarfrestur rann út þann 19. janúar. Á meðal umsækjenda um stöðuna var Sigurður Guðjónsson, sem hefur verið forstjóri stofnunarinnar undanfarin fimm ár.
Þorsteinn, sem nú hefur verið skipaður í embættið frá og með morgundeginum, var á meðal umsækjenda þegar Sigurður var skipaður árið 2016.
Hjá Hafró frá 1994-2019
Þorsteinn er með BS-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og Cand. Scient gráðu frá Háskólanum í Bergen. Hann hóf störf sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun árið 1994 og var forstöðumaður hjá stofnuninni allt frá árinu 2005 til 2019.
Árin 2005 til 2016 starfaði hann sem forstöðumaður nytjastofnasviðs og frá árinu 2016 til 2019 var hann forstöðumaður sviðs uppsjávarlífríkis.
Í fyrra hóf Þorsteinn hins vegar störf sem sérfræðingur á skrifstofu sjávarútvegs og fiskeldis í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, sem nú er orðin skrifstofa sjávarútvegsmála.