Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lést á sjúkrahúsinu á Akureyri í gærkvöldi eftir baráttu við brjóstakrabbamein. Mbl.is greindi fyrst frá.
Þórunn var þingflokksformaður Framsóknarflokksins og oddviti hans í Norðausturkjördæmi. Fyrr á árinu greindi hún frá því að hún myndi ekki gefa kost á sér í næstu alþingiskosningum, þar sem hún hefði að nýju greinst með krabbamein í kringum jólahátíðina.
Þórunn fæddist í Reykjavík þann 23. nóvember 1964. Hún hafði verið sauðfjárbóndi síðan 1986, en fékkst einnig við grunnskólakennslu á árunum 1999-2008. Þar á eftir var hún verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Austurlands alveg þangað til hún fór á þing fyrir Framsóknarflokkinn árið 2013. Hún skilur eftir sig eiginmann, Friðbjörn Hauk Guðmundsson, og þrjú börn; Kristjönu Louise, Guðmund og Heklu Karen.
Uppfært kl. 15:00. Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að fréttin hafi fyrst birst á Vísi. Hið rétta er að hún birtist fyrst á mbl.is.