Samfylkingin samþykkti í framboðslista sinn fyrir komandi borgarstjórnarkosningar í dag. Flokksvali lauk 13. febrúar þar sem niðurstaðan fyrir sex efstu sætin var bindandi fyrir uppstillingarnefnd, að teknu tilliti til reglna Samfylkingarinnar um að ekki halli á hlut kvenna.
Því lá fyrir að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri myndi leiða listann, að Heiða Björg Hilmisdóttur, varaformaður flokksins, yrði í öðru sætinu og borgarfulltrúinn Skúli Helgason í því þriðja. Borgarfulltrúarnir Sabine Leskopf og Hjálmar Sveinsson röðuðu sér í tvö næstu sæti og eini nýliðinn í efstu sex sætunum er Guðný Maja Riba kennari.
Í næstu tveimur sætum, því sjöunda og áttunda, sitja svo Sara Björg Sigurðardóttir stjórnsýslufræðingur og Birkir Ingibjartsson arkitekt. Ellen Calmon, borgarfulltrúi og fyrrverandi formaður ÖBÍ, er í níunda sætinu.
Dagur segir í fréttatilkynningu að á listanum sé fólk með mikilvæga reynslu af fjölbreyttum sviðum samfélagsins, bæði fólk með reynslu af stjórn borgarinnar en líka ný og fersk andlit sem fengur er að. „Listinn er sigurstranglegur, hann er þéttskipaður fólki úr öllum áttum sem elskar Reykjavík og vill halda áfram að sækja fram og þróa borgina sem græna, fjölbreytta borg með öflugri þjónustu þar sem hugað er að velferð og tækifærum til framtíðar og pláss er fyrir alla.“
Ýmis athyglisverð nöfn er að finna á framboðslistanum í sætum sem eiga ekki sýnilega möguleika á að skila viðkomandi inn í borgarstjórn. Þannig situr Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara, í ellefta sæti listans.
Í tveimur síðustu sætum listans, númer 45 og 46, sitja svo tveir fyrrverandi borgarstjórar, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jón Gnarr. Um svokölluð heiðursæti er að ræða. Vera Jóns á listanum vekur athygli þar sem hann varð borgarstjóri eftir hafa leitt Besta flokkinn til mikils kosningasigurs árið 2010. Jón starfaði fyrir Samfylkinguna í aðdraganda þingkosninga 2017 en hefur ekki áður verið á lista flokksins.