Þrír eru særðir eftir skotárás í bílakjallara verslunarmiðstöðvarinnar Fields í Kaupmannahöfn. Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur staðfest þetta við danska fjölmiðla og segir tvo hafa verið handtekna vegna skotárásarinnar.
„Við vitum ekki meira en þetta. Við munum rannsaka hvað átti sér stað,“ segir Sebastian Rickelsen hjá lögreglunni við danska ríkisútvarpið DR.
Extra Bladet greinir frá því að skotárásin tengist uppgjöri tveggja hópa, og að átta manns hafi tekið þátt í átökum.
Tre er ramt af skud i Field's http://t.co/LjsYN7wZAG
— Politiken (@politiken) March 18, 2015
Fyrir rúmum mánuði framdi 22 ára karlmaður, Omar Abdel Hamid El-Hussein, tvær árásir í Kaupmannahöfn þar sem tveir létust. Hann hóf fyrst skotárás á menningarhúsið Kruttönden á Austurbrú í Kaupmannahöfn þar sem stóð yfir ráðstefna um tjáningarfrelsi. Einn lést í þeirri árás og þrír lögreglumenn særðust. Talið er að skotmark árásarmannsins hafi verið sænski skopmyndateiknarinnar Lars Vilks, sem var á meðal fyrirlesara á ráðstefnunni. Hann slapp hins vegar ómeiddur. Síðar sama dag skaut maðurinn mann sem aðstoðaði við fermingu við samkomuhús gyðinga í Kaupmannahöfn í höfuðið með þeim afleiðingum að hann lést. El-Hussein var felldur skömmu síðar.