Þrjár tillögur verða teknar til umfjöllunar á Alþingi í dag, við atkvæðagreiðslu um gildi kjörbréfa sem útgefin voru af landskjörstjórn 1. október, en þingfundur, sem raunar er framhald á þingsetningarathöfninni á þirðjudaginn, hófst kl. 13.
Í fyrsta lagi verður lagt til, af hálfu meirihluta kjörbréfanefndar sem er skipaður sex fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins, að öll útgefin kjörbréf, 63 talsins, verði staðfest. Þá yrði ekki gripið til neinnar uppkosningar í Norðvesturkjördæmi.
Í öðru lagi verður lagt til að einungis 47 kjörbréf verði samþykkt, eða öll nema kjörbréf þingmanna í Norðvesturkjördæmi auk jöfnunarþingmanna. Þá þyrfti að grípa til uppkosningar í einu kjördæmi. Svandís Svavarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar í kjörbréfanefnd munu mæla fyrir minnihlutaálitum um þessa tillögu.
Í þriðja lagi verður mælt fyrir tillögu um að engin kjörbréf verði samþykkt og boðað verði til nýrra alþingiskosninga í öllum kjördæmum landsins. Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata leggur þetta til í sínu minnihlutaáliti.
Atkvæði verði fyrst greidd um stórtækustu tillöguna
Birgir Ármannsson formaður kjörbréfanefndar sagði við Vísi fyrr í dag að í nefndinni hefði verið gert ráð fyrir því að fyrst yrðu greidd atkvæði um tillögu Björns Levís, því næst yrði gengið til atkvæða um samþykkt 47 kjörbréfa og uppkosningu í Norðvesturkjördæmi.
Síðan yrðu atkvæði greidd um samþykkt allra kjörbréfanna, sem þýddi staðfestingu þingsins á svokallaðri „seinni talningu“ atkvæða í Borgarnesi.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og starfandi forseti Alþingis á þó lokaorðið um í hvaða röð tillögurnar verða teknar fyrir. Á þingfundinum í dag er ekkert annað á dagskránni en rannsókn kjörbréfa, umræður og atkvæðagreiðslur.
Deilt um túlkun og sönnunarbyrði
Undanfarna daga hafa línur skýrst um það hvernig hugur þingmanna liggur til þeirra kosta sem eru uppi eftir þá snúnu stöðu sem kom upp eftir að ljóst varð að meðferð kjörgagna í Norðvesturkjördæmi var ekki í samræmi við lög.
Hins vegar er deilt um það bæði innan þings og utan hvaða áhrif það skuli hafa á gildi alþingiskosninganna í Norðvesturkjördæmi að annmarkar hafi verið til staðar á meðferð kjörgagna. Þingmenn standa frammi fyrir tveimur spurningum:
Er rétt að staðfesta öll kjörbréfin í ljósi þess að ekki þykir sannað að slæleg meðferð kjörgagna hafi valdið því að úrslit kosninganna tóku breytingum?
Eða er rangt að staðfesta öll kjörbréfin, í ljósi þess að ekki er hægt að sýna fram á það með óyggjandi hætti að ekki hafi með einhverjum hætti verið átt við atkvæðin á milli þess sem fyrri og seinni talning atkvæða fór fram?
Þetta verður rætt á Alþingi í dag.