Frá árinu 2010 og út síðasta ár jókst eigið fé íslenskra heimila, munurinn á eignum og skuldum þeirra, um 3.450 milljarða króna. Sú aukning er að langstærstu leyti tilkomin vegna þess að virði fasteigna, í flestum tilfellum heimila fólks, hefur hækkað gríðarlega á tímabilinu. Alls má rekja næstum 76 prósent af aukningunni á eigin fé til hækkandi fasteignaverðs.
Þetta má lesa út úr nýlegum tölum Hagstofu Íslands um eignir og skuldir landsmanna.
Miklar hækkanir á húsnæðisverði í ár hafa verið stærsta breytan í sívaxandi verðbólgu, sem mælist nú 9,9 prósent og stefnir í tveggja stafa tölu. Miklar stýrivaxtahækkanir og takmarkanir á aðgengi að lánsfé til fasteignakaupa eiga að gera það að verkum að hægjast fari á þessum upptakti og hann jafnvel hætti. Í Svíþjóð hefur það til að mynda gerst að húsnæðisverð hefur hríðlækkað á skömmum tíma. Í höfuðborginni Stokkhólmi hefur það lækkað um 8,2 prósent á þremur mánuðum.
Á höfuðborgarsvæðinu hér hefur húsnæðisverð hins vegar hækkað um rúm 16 prósent frá því í desember í fyrra. Í Morgunblaðinu í morgun er haft eftir Má Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskóla Íslands, að það sé ekki ólíklegt að fasteignaverð hérlendis muni taka dýfu. Það hafi gerst áður – verðið lækkaði um 20 prósent milli 2007 og 2010 – samhliða mikilli verðbólgu.
Gangi það eftir mun bókfært eigið fé flestra landsmanna, sem er að uppistöðu bundið í steypu, lækka samhliða.
Hlutfallið hækkað
Af þeirri upphæð sem Íslendingar áttu í eigið fé árið 2010 var 1.146 milljarðar króna bundnir í steypu, eða 73,2 prósent. Hlutfallið hefur aukist frá þeim tíma – það er nú 75 prósent – samhliða því að fasteignabóla hefur verið blásin upp á Íslandi og fasteignaverð hækkað gríðarlega. Á höfuðborgarsvæðinu hefur vísitala íbúðarverðs til að mynda hækkað um 210 prósent frá lokum árs 2010 og fram til dagsins í dag.
45 prósent til efstu tíundarinnar
Ef einungis er skoðað hvað ríkustu tíu prósent landsmanna, hópur sem telur 23.040 einstaklinga, þá sýna tölur Hagstofunnar að virði fasteigna hans hafi aukist um 1.551 milljarða króna á áratug og að 45 prósent allrar hækkunar á fasteignaverði hafi farið til þessa hóps.
Sá hópur er bæði líklegastur til að búa í dýrasta húsnæðinu sem í boði er og að eiga fleiri en eina fasteign.
Samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands eiga á fimmta þúsund einstaklingar og lögaðilar fleiri en eina íbúð. Sá hópur á alls um 53 þúsund íbúðir. Í lok síðasta árs áttu alls 71 einstaklingar og 382 lögaðilar fleiri en sex íbúðir, 155 einstaklingar og 101 lögaðilar eiga fimm íbúðir og 579 einstaklingar og 165 lögaðilar eiga fjórar íbúðir. Fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga þrjár íbúðir er 2.974 og fjöldi lögaðila sem eiga sama magn íbúða er 285. Þá eiga 16.501 einstaklingur og 688 lögaðilar tvær íbúðir.
Flestir landsmenn með eigið féð bundið í steypu
Kjarninn greindi frá því nýverið að á árinu 2021 hafi orðið til 608 nýir milljarðar króna í eigið fé hjá íslenskum heimilum. Sá hópur landsmanna sem tilheyrir þeim tíu prósentum sem höfðu hæstu tekjurnar jók eign sína á árinu um 331 milljarð króna. Það þýðir að 54,4 prósent af nýjum auð sem varð til í fyrra lenti hjá þessum hópi, sem telur 23.040 fjölskyldur.
Þegar þróun á eignum og skuldum þjóðarinnar er skoðað aftur í tímann kemur í ljós að á árunum 2010 til 2020, á einum áratug, tók þessi efsta tíund að meðaltali til sín 43,5 prósent af öllum nýjum auð sem varð til á ári. Því átti sú þróun sér stað á síðasta ári að ríkustu tíu prósent landsmanna tóku til sín mun hærra hlutfall af nýjum auð en hópurinn hefur að jafnaði gert áratuginn á undan.
Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að þau 80 prósent landsmanna sem eiga minnst eru með 85 prósent af sínu eigin fé bundið í fasteignum á meðan að það hlutfall er rúmlega 55 prósent hjá efstu tíundinni, sem á til að mynda mun meira af hlutabréfum og öðrum fjármunaeignum en aðrir hópar í landinu.