Um 30 prósent atvinnulausra eru á aldrinu 16 til 24 ára, eða tæplega einn af hverjum þremur sem eru án vinnu og í atvinnuleit, samkvæmt gögnum Hagstofunnar um atvinnuleysi í janúar. Frá því í ágúst á síðasta ári hafa á bilinu 2.400 til 3.000 manns á þessum aldri verið atvinnulausir í hverjum mánuði.
Atvinnuleysi á Íslandi mælist 4,4 prósent, samkvæmt nýbirtum niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofu Íslands. Atvinnuleysið er þó misjafnt milli hópa og mælist um 8 prósent hjá fólki á aldrinum 16 til 24 ára. Um 2.400 manns á þessum aldri voru atvinnulausir í janúar samanborið við 5.800 atvinnulausa á aldrinum 25 til 74 ára.
Alls eru 186.400 manns á vinnumarkaði sem jafngildir um 80,3% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 8.100 án vinnu og í atvinnuleit, það eru atvinnulausir. Fram kemur í frétt Hagstofunnar að fjölgun vinnuafls frá því í janúar 2014 nemur 5.000 manns. Á þessu tímabili fækkaði atvinnulausum um 4.300 manns.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir voru á RÚV. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.