Til viðbótar við nýtt innviðaráðuneyti, sem mun bæta húsnæðis- og mannvirkjamálum og skipulagsmálum við þá málaflokka sem nú tilheyra samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, þá er verið að ræða að mynda nýtt þekkingarráðuneyti utan um málefni vísinda, menningar og nýsköpunar. Auk þess kemur til greina að endurreisa viðskiptaráðuneytið sem lengi vel var starfandi og að undir það falli allur fjármálageirinn, samkeppnis- og neytendamál og félagaréttur. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er nýr stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar nánast tilbúinn. Hann mun ekki takast á við öll þau mál sem aðskilja flokkanna sem mynda stjórnina: Vinstri græn, Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk og eitt helsta ágreiningsmál þeirra, hversu mikið eigi að virkja, verði klætt í búning endurskoðunar á fyrirkomulagi rammaáætlunar. Í frétt Morgunblaðsins er sagt að einhver „erfið mál“ verði látin bíða lausnar á kjörtímabilinu.
Sjálfstæðisflokkurinn á leið í heilbrigðisráðuneytið
Líkt og Kjarninn greindi frá um liðna helgi er búist við því að Sjálfstæðisflokkurinn fái heilbrigðisráðuneytið og mestar líkur taldar á að Guðlaugur Þór Þórðarson setjist í þann stól. Hann hefur áður gegnt því embætti, á árunum 2007 til 2009. Ástæður þess að hann þykir líklegur til að færa sig eru þær að hann hefur reynslu af því að stýra ráðuneytinu, sem Sjálfstæðismenn vilja mikið komast yfir, og að Framsóknarflokkurinn hefur augastað á utanríkisráðuneytinu. Verði þessi kapall að veruleika segja viðmælendur Kjarnans sennilegast að Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokks, setjist í utanríkisráðuneytið. Svandís Svavarsdóttir myndi þá fara í menntamálin.
Stjórnarformennirnir þrír munu halda sínum ráðuneytum. Katrín Jakobsdóttir verður forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson sitja áfram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Sigurður Ingi Jóhannsson fara fyrir nýju innviðaráðuneyti.
Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins í dag er búist við að ráðuneytum mun fjölga um eitt með mögulegum tilbúningi viðskiptaráðuneytis og að það viðbótarráðuneyti muni sennilega falla í skaut Willums Þórs Þórssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Sjálfstæðisflokkur mun halda sínum ráðherrafjölda en í stað Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem er hættur í stjórnmálum, muni Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, setjast í ríkisstjórn.
Nær allir viðmælendur Kjarnans sem starfa í stjórnmálum telja sig nokkuð örugga um að embætti forseta Alþingis muni falla Sjálfstæðisflokknum í skaut, en það er talið ígildi ráðherraembættis. Í það muni setjast Birgir Ármannsson, sem um þessar mundir stýrir vinnu undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa.